Hættulegasti staður á Íslandi

Vísindamenn og aðrir sem starfa við gosstöðvarnar eru vel tækjum …
Vísindamenn og aðrir sem starfa við gosstöðvarnar eru vel tækjum búnir til að varast gaseitrun. Eggert Jóhannesson

Nokkuð hefur verið um að einstaklingar sem ekki hafa til þess tilskilin leyfi hafi farið inn á lokuð svæði í kringum Holuhraun. Lögreglan á Húsavík hefur nokkur slík tilfelli til rannsóknar og mega þeir sem gerast sekir um að fara inn á svæðið í leyfisleysi búast við vænni fjársekt enda telst slíkt lögbrot.

Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá almannavörnum ríkissins, segir nauðsynlegt að taka lokanirnar alvarlega enda sé umbrotasvæðið sennilega hættulegasti staðurinn á Íslandi í dag. 

„Fólk fann fyrir miklum óþægindum á Reyðarfirði í gær en það eru 80 kílómetrar eða meira þangað í beinni loftlínu. Gasmengun á gossvæðinu er margföld á við það, hún er yfir öllu og lífshættuleg,“ segir Víðir. Hann ítrekar að vísindamenn sem eru að störfum við gosstöðvarnar séu með góð mælitæki og vel varðir en tekur jafnframt fram að jafnvel þeir sem best eru búnir þurfi ítrekað að flýja langt í burtu vegna gasmengunnar. 

„Jörðin er einnig stöðugt að breytast þarna og það opnast nýjar sprungur. Við höfum nokkur dæmi um það að ný eldgos hefjist án nokkurs fyrirvara og við vitum jafnvel ekki af því að þau séu að byrja fyrr en við sjáum þau,“ segir Víðir um aðrar hættur á gosstöðvunum en nefnir einnig að öskufall valdi slæmu skyggni næst hrauninu og þá sé erfitt að komast um.

Víðir segir hættuna raunar geta tengt sig langt út fyrir það svæði sem lokað er og minnir á öskufallið á Kirkjubæjarklaustri í Grímsvatnagosinu en Grímsvötn eru um 80 kílómetra frá bænum. „Við teljum mjög  miklar líkur á því að það verði gos undir jökli með tilheyrandi jökulhlaupum og öskufalli. Þegar saga Bárðarbundu eldstöðvarinnar er skoðuð sést að auðveldlega getur orðið mjög mikið öskufall í töluvert langri fjarlægð rá eldstöðinni. Við horfðum þannig á það svæði sem við lokuðum að fyrir utan þau mörk ætti fólk að komast í burtu ef það lenti í öskufalli en innan þessa svæðis teljum við að það gæti orðið erfitt að fara um.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert