Íslandsbanki býður 90% lán til fyrstu fasteignakaupa

Höfuðstöðvar Íslandsbanka.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslandsbanki tilkynnti í dag að bankinn hyggist lána allt að 90% af kaupverði fasteignar við fyrstu kaup með því að bjóða upp á „sérstakt aukalán“ umfram þau 80% kaupverðs sem bankinn hefur hingað til lánað fyrir.

„Hámarksfjárhæð lánsins er 1,5 milljón króna en þó að hámarki 90% af kaupverði íbúðarhúsnæðis. Lánið kemur þá til viðbótar við hefðbundna húsnæðisfjármögnun sem er 80% af kaupverði. Hámarkslánstími er 10 ár og er hægt að velja um jafnar afborganir eða jafnar greiðslur,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Haft er eftir Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs, í tilkynningu sem Íslandsbanki sendi frá sér að: „[m]eð því að bjóða upp á þennan kost erum við að koma til móts við stóran hóp ungs fólks sem hefur hingað til ekki getað keypt sér íbúð.“

„Í mörgum tilvikum er greiðslugetan góð en vantað getur upp á útborgunina. Með aðgerðum ríkisins sem að bjóða fólki að nýta séreignasparnað til útborgunar í íbúðarkaupum og þessu láni hafa verið tekin skref í þá átt að auðvelda ungu fólki að eignast sína fyrstu íbúð.“

Lánið mun bera breytilega óverðtryggða kjörvexti skuldabréfalána samkvæmt vaxtatöflu bankans hverju sinni og ekkert uppgreiðslugjald er af láninu.

Samhliða þessu hefur Íslandsbanki ákveðið að veita helmingsafslátt af lántökugjöldum vegna kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæðinu fram að áramótum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert