Selja á 30% í Landsbankanum

Bjarni Benediktsson fjármálaráherra tók þátt í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í …
Bjarni Benediktsson fjármálaráherra tók þátt í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn

Heildarafkoma ríkissjóðs verður 4,1 milljarður króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2015 en meðal þess sem rætt var í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöldi var fjárlagafrumvarp næsta árs.

Stóru tíðindin eru því þau að afkomubatinn er frekar hóflegur milli ára, segir í markaðspunktum Arion banka.

„Ef horft er til greiðsluuppgjörs ríkisins það sem af er ári hafa tekjustofnarnir verið að styrkjast umtalsvert og í ljósi þess hefði mátt búast við ívið betri afkomu á næsta ári. Engu að síður er þetta annað árið í röð þar sem fjárlagafrumvarpið er hallalaust og nú er ennfremur gert ráð fyrir jákvæðum lánsfjárjöfnuði.

En það þýðir að á næstu árum getur ríkissjóður dregið úr skuldabréfaútgáfu á innlendum fjármálamörkuðum og einblínt á lækkun skulda. Fyrsta skref í þá átt er stigið í fjárlagafrumvarpinu nú en þar er gert ráð fyrir sölu á 30% hlut ríkisins í Landsbankanum og virði hlutarins er áætlað um 70 ma.kr. Þeim fjármunum verður ráðstafað í að greiða niður skuldir með því að greiða inn á RIKH 18 bréfið sem gefið var út til að fjármagna nýju bankanna árið 2008,“ segir í markaðspunktum Arion banka.

Greiningardeild Arionbanka telur erfitt að meta bein verðlagsáhrif af skattabreytingum en telur að nokkrir þættir geti rökstutt að verðlagsáhrifin verði meiri en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Í fyrsta lagi eru líkur á að hækkun á neðra virðisaukaskattsþrepinu muni skila sér af meiri krafti út í verðlag en lækkun á efra þrepinu og afnám vörugjalda.

Í öðru lagi koma aðgerðirnar fram á sama tíma og skuldaleiðrétting stjórnvalda, hækkun barnabóta og afnám auðlegðarskatts. Hærri ráðstöfunartekjur og meiri eftirspurn geta því dregið úr líkum á að verðlag lækki verulega á sumum vörutegundum.

„Á móti má þó nefna að krónutölugjöld munu standa í stað sem er jákvætt hvað verðlagsþróun varðar. Þegar horft er á tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins í heild sinni vekur það að minnsta kosti spurningar um hver endanleg verðlagsáhrif verða og hvaða  áhrif frumvarpið mun hafa á kjaraviðræður framundan,“ segir í markaðspunktum Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert