Jarðskjálfti, 5,3 að stærð, varð á suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar klukkan sjö í morgun. Um fimmleytið mældust tveir fremur stórir skjálftar við Bárðarbungu. Annar var 4,3 stig en hinn 3 stig, samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.
Nokkrir jarðskjálftar stærri en 5 hafa mælst síðustu daga á brún öskjunnar. Aðfaranótt miðvikudags mældist skjálfti upp á 5,5 stig 4,5 km norðaustur af Bárðarbungu og klukkan 15:51 í gær mældist annar upp á 4,8 stig 4,2 km suðaustur af Bárðarbungu. Sá í morgun átti upptök sín 6,9 km austsuðaustur af Bárðarbungu.
Töluvert líf virðist vera í gossprungunni í Holuhrauni ef litið er á myndir í vefmyndavél Mílu. Stígur talsverður mökkur frá sprungunni en mbl.is mun ræða við eldfjallafræðing á eftir þegar vísindamenn hafa farið inn á gossvæðið.
Bætt við klukkan 6:58
Um 20 skjálftar mældust á umbrotasvæðinu í nótt og hefur þeim því heldur fækkað frá síðustu nótt, segir í yfirliti frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.
Skjálftavirknin er ennþá að mestu bundin við Bárðarbungu og norðurenda gangsins (við jaðar Dyngjujökuls).
Stærstu skjálftar urðu rétt upp úr miðnætti (M 5,3) og um fimmleytið (M 4,3 og M 3) við Bárðarbungu.