Hagsmunasamtök heimilanna segja marga þá sem fengu frestun endanlegra fullnustugerða um síðustu áramót enn vera í sömu sporum og bíði eftir niðurstöðum skuldaleiðréttingar. Fresturinn rann út 1. september 2014 án þess að brugðist væri við þeirri stöðu sem upp kæmi í kjölfarið af hálfu löggjafans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum þar sem þau spyrja jafnframt til hvaða aðgerða innanríkisráðherra hyggist grípa til að koma einstaklingum og fjölskyldum til bjargar sem misst hafa eða standa frammi fyrir því að missa heimili sín vegna „seinagangs ráðherrans við að framlengja frestun á nauðungarsölum.“
Hagsmunasamtökin inntu sýslumannsembætti landsins eftir fjölda fullnustugerða fyrri hluta septembermánaðar og sýna þær tölur sem bárust að yfir 60 heimili séu í hættu. Síðustu daga hafi þó farið fram endanlegt uppgjör fjölda eigna sem voru á framlengdum samþykkisfresti. Telja samtökin þetta alvarlegt mál og furða sig jafnframt á því að einungis helmingur sýslumanna hafi svarað fyrirspurn þeirra, þrátt fyrir ítrekanir.
Fyrir Alþingi liggur nýtt frumvarp um framlengingu frestunar á nauðungarsölum og binda samtökin vonir við að það verði að lögum síðar í þessum mánuði.