Kennslu í grunnskólum á Íslandi hefur hrakað síðan árið 2000, fátt bendir til annars að sögn Almars Miðvík Halldórssonar, verkefnisstjóra PISA-könnunar hjá Námsmatsstofnun.
Um aldamótin voru íslenskir nemendur yfir OECD- meðaltali í læsi samkvæmt niðurstöðu PISA-könnunar sem birt var 2001. Núna eru nemendur komnir undir meðaltalið samkvæmt niðurstöðu síðustu PISA-könnunar. Slíkt sé ekki ásættanlegt og úrbæturnar liggi innan skólastofunnar.
„Öll mín spjót beinast að kennurum. Það þarf að hlúa að þeim mannauði og efla hann markvisst. Við þurfum að bæta kennsluna og námsefnið ef við ætlum að ná betri árangri því við sættum okkur ekki við að vera undir OECD-meðaltali í PISA-könnunum,“ segir Almar Miðvík í umfjöllun um nauðpsyn bættra kennsluhátta í Morgunblaðinu í dag.