Gasið berst langt í vindinum

Gosstöðvarnar aðfararnótt miðvikudagsins 10. september.
Gosstöðvarnar aðfararnótt miðvikudagsins 10. september. Skapti Hallgrímsson

„Við getum talist vera heppin að þessu leyti að það blæs hressilega þessa dagana,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni.

Eitraðar tegundir gass steyma nú frá eldsprungunum í Holuhrauni. Hefur blámóða þeirra borist til byggða á Austurlandi. Umhverfisstofnun hefur hvatt Austfirðinga til að hafa andvara á sér. Mælst er til þess að börn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, til dæmis í öndunarfærum, haldi sig inni við þegar gosandans gætir helst. Vísindamenn hafa áætlað að frá gossprungunni og storknandi hrauninu streymi allt að 10 þús. tonn á dag af brennisteinstvíildi.

Gasið fylgir landslaginu

„Yfir gosrásinni og heitu hrauninu rís gasið í nokkra hæð og berst þaðan undan vindi um leið og það kólnar. Brennisteinstvíildi er þyngra en andrúmsloft. Það leitar því aftur niður til yfirborðs þegar komið er fjær eldgosinu og fylgir landslaginu í megindráttum. Það gera líka önnur brennisteinssambönd, svo sem brennisteinsvetni og brennisteinssýra. Og við hægan vind er hætt við að blámóðan berist yfir víðfemt landsvæði með viðvarandi nokkuð háum styrk,“ segir Einar, sem starfa sinna vegna hefur fylgst grannt með þróuninni eystra síðustu daga.

Ekki er vitað til þess að neinn hafi orðið fyrir skaða af völdum gassins, sem berst í mjóum kjarna yfir afmarkað svæði. Í Morgunblaðinu í gær sást á mynd sem kom frá NASA, Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, hvernig gas berst úr Holuhrauni fram Jökulsdalsheiðar og leitar þaðan yfir Hérað og niður á firði. Einnig hefur gassins og áhrifa þess gætt í Hjaltastaðaþinghá og nærri Borgarfirði eystra.

Sjá í hvaða átt gasið berst

„Vissulega getur styrkur gass orðið mikill, þegar vindur herðir á þeirri sókn og beinir brennissteinsloftinu niður eðli þess samkvæmt. Slíkt stendur þó jafnan yfir í skamman tíma, því í þetta ákveðnum vindi liggur styrkurinn í mjórri lænu og sem betur fer berast efnin að mestu á haf út án þess að ná verulega til yfirborðs,“ segir Einar sem telur erfitt að segja til um nákvæman styrk gassins með spálíkönum. Þar standi ýmislegt í vegi. Til að mynda hefur yfirborð landsins truflandi áhrif á útreikninga í þessum dreifilíkönum.

„Ólík þyngd brennisteinssambandanna samanborið við andrúmsloft spilar þarna inn í sem og það að erfitt getur reynst að áætla rétt hitauppstreymi yfir gosstöðvunum. En við höfum þó alltaf sæmilega áreiðanlegar spár um vindáttina og við sjáum því í hvaða átt gasið er að berast. Út frá vindáttinni einni saman má síðan geta sér til um ákveðin líkindi á því hvar brennisteinssamböndin berist yfir,“ segir Einar og heldur áfram:

Hvarfast í brennisteinssýru

„Við höfum líka verið heppin til þessa að því leytinu til að ekki hefur fylgt þessu úrkoma á Austurlandi og loftið verið tiltölulega þurrt. Brennisteinstvíildi hvarfast með vatni auðveldlega í brennisteinssýru og í kjölfarið fellur súrt regn sem getur verið skaðlegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert