Góða löggan gegn vondu bankamönnunum

Sérstakur saksóknari.
Sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar

„Það var ákveðin brenglaður hugsunarháttur ríkjandi og er innan embættisins,“ sagði Jón Óttar Ólafs­son, fyrr­ver­andi rann­sókn­ar­lög­reglu­maður hjá sér­stökum sak­sókn­ara, í kvöldfréttum RÚV um embætti sérstaks saksóknara. Lögfræðilegir ráðgjafar saksóknarans saka hann hins vegar um ósannindi.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag birtist viðtal við Jón Óttar í Fréttablaðinu í dag þar sem þung­ar ásak­an­ir koma fram í garð embætt­is sér­staks sak­sókn­ara og rík­is­sak­sókn­ara. Í því sagði hann embættið meðal ann­ars hafa hlerað með ólög­mæt­um hætti sím­töl verj­enda við skjól­stæðinga sína og spilað þau í húsa­kynn­um þess þannig að all­ir viðstadd­ir hafi getað heyrt þau. Stemn­ing­in í kring­um það hafi verið eins og hjá krökk­um í sæl­gæt­is­búð.

Í kvöldfréttum RÚV ítrekaði Jón Óttar svo að brenglaður hugsunarháttur væri ríkjandi hjá sérstökum saksóknara. „Það er svolítið mikið svona við og þeir. Við löggan, góðir, á móti einhvers konar vondum andstæðingum, bankamönnum.“

Þá var tekið fram í lok fréttatímans að þeir Jón H.B. Snorrason og Sigurður Tómas Magnússon, lögfræðilegir ráðgjafar sérstaks saksóknara, vildu koma því á framfæri að það séu ósannindi að þeir hafi hlustað á símtöl sakborninga og verjenda. Þá hefur Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, einnig hafnað lýsingu Jóns Óttars.

Uppfært 14. september klukkan 7.45

Fréttavefurinn Vísir birti einnig viðtal Fréttablaðsins við Jón Óttar Ólafsson. Með því að smella hér má lesa það á Vísi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert