Fram kemur í nýrri úttekt Embættis landlæknis á lyflækningasviði Landspítalans að niðurskurður liðinna ára hafi tekið sinn toll af starfseminni og því sé brýnt að gera ýmsar úrbætur til að tryggja öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar.
Í úttektinni segir að áhyggjuefni sé að starfsfólk finni fyrir miklu álagi. Þá sé einnig umhugsunarvert hversu mikil rúmanýting er, en hún er 97% fyrir sviðið í heild og einatt yfir 100% á bráðalegudeildum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Það er töluvert yfir æskilegri rúmanýtingu á þess háttar deildum og hefur mjög víða leitt til gangainnlagna, sem ógna gæðum þjónustu og geta einnig ógnað öryggi sjúklinga. Talið er ljóst að legurými á bráðalegudeildum séu of fá til að anna þeirri þjónustu sem sviðið veitir.