„Bandaríkjamenn munu læra að elska íslensku jólasveinanna,“ segir rithöfundurinn Ken Barr sem sjálfur kolféll svo fyrir jólavættunum einstöku að hann sá ekki annað í stöðunni en að skrifa bók um þá og gefa út í heimalandi sínu. Hann tók sér hins vegar skáldaleyfi og gaf til dæmis jólakettinum nafn.
Hún er nokkuð athyglisverð saga Barr. Í um tuttugu ár ferðaðist hann með tónlistarmanninum Alice Cooper og hljómsveitum á borð við Kiss og Stone Temple Pilots sem rótari eða þar til hann ákvað að láta draum sinn rætast og hefja feril sem rithöfundur. Þegar hann svo kynntist íslenskri konu komst hann í kynni við íslensku jólasveinana. „Mig langaði að halda henni hefðbundin íslensk jól og leitaði því að þeim á netinu. Á meðal þess sem ég fann voru sögur um jólasveinana og tengdi samstundis við þá,“ segir Barr í samtali við mbl.is. „Í kjölfarið las ég allt það sem ég fann um sveinana og fannst sem ég yrði að miðla efninu áfram.“
Barr lagðist í rannsókn á íslensku jólasveinunum og ræddi meðal annars við Íslendinga um þá. „Íslensku vinir mínir hjálpuðu mér mikið og aðstoð þeirra varð til þess að ég skildi bræðurna betur.“
Hann segist vona að Íslendingar taki bók sinni vel enda sé hún unnin af einlægri ást á íslensku jólasveinunum. Þá hafi hann sent handritið á íslenska stjórnmálamenn og fólk innan ferðaþjónustunnar og ekki fengið annað en jákvæð viðbrögð. „Ég held einnig að Bandaríkjamenn muni taka þeim bræðrum vel. Þeir eru ekki mikið til umræðu hér í landi en ég ætla mér að breyta því.“
Auk þess að skrifa um jólasveinana þrettán valdi Barr tólf „týnda“ sveina til viðbótar, til dæmis þá Bandaleysi, Lummusníki, Lampaskugga, Móamanga og Svartljótan. Þar sem hann fann ekki annað um þá en nöfnin bjó Barr til sögur í kringum þá einnig. Þá þótti Barr ekki við hæfi að Jólakötturinn hefði ekki nafn og er hann í bók hans nefndur Úlfa. Ennfremur skrifar Barr um Grýlu og Leppalúða
En hver er uppáhalds jólasveinn Kens Barr?
„Ég gæti ekki valið einn úr hópnum. Eftir að hafa kynnt mér þá svona vel og skrifað um þá eru þeir alilr orðnir miklir vinir mínir. Þeir eru allir stórgóðir.“