Þingmaður Framsóknarflokksins segir að hugsanlega séu sanngirnisrök fyrir því að þeir sem kjósi að borða mikinn sykur greiði sérstakan skatt vegna þess. Óhófleg sykurneysla sé talin orsakavaldur margra sjúkdóma og meðhöndlun þeirra valdi miklum kostnaði. Þetta segir Frosti Sigurjónsson á Facebook-síðu sinni í dag en samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður svokallaður sykurskattur felldur niður. Á tveimur áratugum gæti óbreyttur sykurskattur greitt fyrir nýjan Landspítala.
„Sykurskattur skilar ríflega þrem milljörðum í ríkissjóð en í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að hann verði felldur niður. Þótt sykurskattur dragi kannski ekki mikið úr neyslu, þá getur sykurskattur leitt til þess að framleiðendur dragi úr sykurmagni í framleiðsluvörum. Óhófleg sykurneysla er talin vera orsakavaldur fjölmargra sjúkdóma. Meðhöndlun þessara sjúkdóma mun valda miklum kostnaði og kannski eru sanngirnisrök að þeir sem kjósa að borða mikinn sykur greiði skatt. Á 20 árum myndi óbreyttur sykurskattur duga til að borga nýjan Landsspítala.“