Skólakerfið er á niðurleið

Margrét Pála Ólafsdóttir.
Margrét Pála Ólafsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Margrét Pála Ólafsdóttir segir að þörf sé á grundvallarbreytingum í skólakerfinu. Hún vill sjá gjörbreytta námsskrá fyrir landið í heild þar sem skólar hefðu aukið frelsi. Hún segir þá sem unnið hafa að Hjallastefnunni búa yfir þekkingu sem sé einstök á heimsvísu. 

Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, er landsþekkt fyrir frumkvöðlastarf sitt í skólamálum. Umsvifin hjá Hjallastefnunni fara sívaxandi og foreldrar sækjast mjög eftir því að koma börnum sínum í þá skóla sem Margrét Pála rekur víðs vegar um land og biðlistar eru langir. Hjallastefnan er 25 ára nú í haust, starfsmenn eru 460 og nemendur rúmlega 2000, í þrettán leikskólum og fimm grunnskólum í tíu sveitafélögum um allt land.

Margrét Pála er fyrst spurð hvað hún telji gera að verkum að fólk sækist svo mjög eftir því að setja börn sín í skóla Hjallastefnunnar. „Þegar kemur að leikskólunum okkar tel ég að það séu yfirlýst markmið okkar um kærleika, jákvæðni og gleði sem höfði til foreldra,“ segir hún. „Við viljum fyrst og síðast að hvert einasta barn sem kemur til okkar skynji óendanlegan kærleika og jákvæðni gagnvart sér. Í fyrsta sinn í sögu Vesturlanda er verið að útvista uppeldi barna, eins og ég kallað það, það er að segja fjölskyldur, sem bera meginábyrgð á börnum sínum samkvæmt lögum, hafa afhent þau öðrum stóran part af deginum. Börn eru ekki einu sinni farin að mynda geðtengsl þegar þau eru send í leikskóla. Þegar börnin koma til okkar, sem erum í launuðu starfi við að sinna þeim, þá verðum við að finna leiðir til að hvert einasta barn fari inn í hjarta okkar sem allra fyrst.

Hvað varðar grunnskólastigið þá held ég að þar þyki foreldrum eftirsóknarverðast að við erum með fámennari hópa heldur en gengur og gerist í skólakerfinu, en algengt viðmið er 24 börn í bekk með einn kennara. Ég held líka að foreldrar leiti til okkar vegna þess að við erum með opna kennsluhætti þar sem til dæmis barn sem orðið er þreytt eftir tíu mínútna einbeitingu getur farið út og hlaupið í hring og komið svo aftur inni í skólastofuna. Ég held að fólk sé að sækja í frjálsræði og sveigjanleika í grunnskólum okkar ásamt kærleika og jákvæðni, fremur en margar síður af hugmyndafræði Hjallastefnunnar.“

Eins og að færa fjall úr stað

Finnst þér að þurfi að umbylta íslenska skólakerfinu og ef þér finnst það hvað þarf þá að gera, að þínu mati?

„Skólarnir eru troðfullir af hugsjónafólki á lágum launum sem langar til að láta gott af sér leiða en skólafastinn, sá rammi sem ákveður hvað skóli á að vera, byggist á hugmyndum gamla iðnaðarskólans og hvað sem öllum nýjungum og fjölbreytni líður þá eru námsskráin, stundaskráin, kjarasamningar og viðhorf okkar rígnegld niður. Að hnika til þessum skólafasta er eins og að færa fjall úr stað. Ef ég mætti ráða þá fengju skólarnir frelsi, átak yrði í vitundarvakningu til foreldra um það hvað skóli á að standa fyrir og samin yrði gjörbreytt námskrá fyrir landið í heild þar sem skólar hefðu frelsi að helmingi um það sem væri kennt.

Læsi, stærðfræði, tungumál og tækni eru grundvallaratriði í námskrá en síðan ætti að fara eftir vilja, áhugasviði og getu barna hvar þau fá að njóta sín. Skólinn er ekki lengur handhafi þekkingar eins og hann var og kennarinn er ekki sá sem kann og veit mest, því við erum með alla heimsins tækni í símanum. Skylda skólans er að viðhalda námsáhuga barna og börn hafa svo sannarlega námsáhuga. Hefurðu fylgst með litlu barni sem er að læra að ganga? Ef þú hefur gert það þá hlýturðu að lúta höfði í auðmýkt. Ef ég myndi detta jafnoft og meiða mig jafnoft og mistakast aftur og aftur eins og þessu litla barni þá væri ég búin að segja: Ég get þetta ekki, ég er hætt að reyna. En litla barnið heldur áfram. Ég held að það hugleiði aldrei: Ég mun ekki geta þetta. Það hefur endalausa trú á því að það takist. Ef við viðhöldum námsáhuga barna og sjálfstrausti þá munu þau geta lært allt.

Við viljum að börn séu læs og njóti bókmennta, búi yfir talnaskilningi og hafi góða þekkingu á grundvallar-reikniaðgerðum, læri sem mest af tungumálum og hafi vald á tækni. Þetta eru lykilþættir sem skólinn á að vinna að en frelsi ætti að ríkja um annað. Ég myndi vilja sjá minni skóla þar sem skólafólk væri hvatt til að finna eigin leiðir og þróa þær. Síðan er annað mikilvægt atriði sem ekki má gleyma sem er að við þurfum að stíga til baka í sambandi við blöndun í bekki, þar sem sérdeildir og sérskólar eru horfnir. Trúlega þurfti sú þróun að blanda í bekki að eiga sér stað en hún hefur ekki verið til góðs og kennarar eru að bugast undan gífurlegum sérþörfum nemenda sem þeim er gert að sinna. Ég veit að það er mjög óvinsælt að segja þetta en ég veit líka að margir foreldrar velja Hjallastefnuna á grunnskólastiginu af ótta við að barnið þeirra falli ekki inn í hefðbundið grunnskólakerfi. Ef skólinn passar bara fyrir suma þá erum við á röngum stað og þá dugar ekki að segja í lögum að hann passi fyrir alla.“

Hefurðu raunverulega trú á því að breytingar eins og þær sem þú ert að tala um verði að raunveruleika í íslenska skólakerfinu?

„Ég veit að það er ekki hægt að breyta kerfi með því að smella fingrum. Mín lausn er þessi: Látum skóla sem vilja prófa sig áfram fá meira frelsi. Í Danmörku þurfa sjálfstætt starfandi skólar, sem eru byggðir utan um ákveðna hugmyndafræði, ekki að kenna nema 75 prósent af landsnámsskránni og hafa svo frelsi til viðbótar. Ég vildi sjá galopnun gagnvart sjálfstætt starfandi skólum sem myndu prófa sig áfram með foreldrum og kennurum og þannig smátt og smátt sveigja kerfið til breytinga.

Í grunnskólanum er verið að gera marga frábæra hluti en það er skólafastinn sem ég gagnrýni. Margir hafa tekið því sem svo að ég telji kennara ekki valda starfi sínu, en þau viðbrögð bera vott um viðkvæmni í kerfi sem er í vörn. Skólakerfið er á niðurleið. Grundvallarbreyting hefur ekki orðið allt frá því iðnaðarkennslan hófst og fólk var látið vinna ákveðinn tíma til að skila afköstum og ljúka við hluti. Svo var ákveðið að gera það sama við börn: Höfum þau hérna í 40 mínútur þar sem kennarinn kennir upp við töflu og þau tileinka sér það sem hann segir.“

Hreinskiptin samtöl

Þú átt samskipti við stjórnmálamenn vegna vinnu þinnar í skólamálum. Finnurðu mun á því hvernig stjórnmálamenn taka hugmyndum þínum eftir því hvort þeir fylgja hægri stefnu eða eru til vinstri?

„Ég sagði einhvern tíma að ég væri hvorki hægri né vinstri manneskja. Ég er skólamanneskja. Börn og ungmenni, hagur þeirra, líðan og velgengni eru mitt hjartans mál. Ég kem hjarta mínu ekki til að slá annars staðar, hvað sem ég reyni. Þess vegna fór ég út úr kerfinu á sínum tíma og fór sjálf að reka leikskóla og skóla til að opna fjölbreyttari leiðir. Það var ekki vegna þess að mig langaði til að fara út úr kerfinu heldur vegna þess að ég hafði ekki fengið tækifæri til að gera það sem mér fannst nauðsynlegt að gera.

Hægri menn hafa tekið hugmyndum mínum vel en vinstri menn, gamlir vinir mínir og samherjar, hafa aftur á móti tekið þeim eins og ég vilji ameríska einkavæðingu þar sem foreldrar borga og fyrirtæki græða. Ég er um þessar mundir að eiga mjög hreinskiptin samtöl við vini mína þar sem ég segi þeim að það særi mig óendanlega sem sjálfstæða félagshyggjukonu að fólk vilji ekki skoða innihaldið í þessum nýja sjálfstæða rekstri heldur horfi til Ameríku þar sem foreldrar eru jafnvel að borga allan kostnað við menntun barna sinna.

Á sínum tíma var Garðabær, undir stjórn Ásdísar Höllu Bragadóttur sjálfstæðiskonu, eini aðilinn sem vildi vinna með mér á grunnskólastigi. Báðum þótti okkur óskaplega merkilegt þegar við settumst niður árið 2003, hún bæjarstjóri í Garðabæ, íhaldsbælinu sjálfu, og ég, gamli komminn, og ræddum þann möguleika að búa til sjálfstætt starfandi skóla þar sem ég hefði frelsi um það sem ég vildi gera og fengi sama fjárframlag og aðrir skólar í bænum. Það voru sjálfstæðismenn sem vildu fara þessa leið, vinstri menn fóru í vörn. Í öllum sveitarfélögum þar sem ég kom nálægt leikskólarekstri hélt ég alltaf sömu ræðuna: Ég er tilbúin að opna tilraunskóla sem prófar sig áfram og gerir nýja hluti, bakkið mig bara upp. Hvað heldurðu að ég hafi oft fengið nei?“

Einstök þekking á heimsvísu

Nú borga foreldrar skólagjöld fyrir börn sín sem eru nemendur í skólum Hjallastefnunnar. Ertu sátt við þau skólagjöld?

„Það er enginn vandi að fyrirbyggja að foreldrar þurfi að borga skólagjöld. Lausnin er einföld, ég segi við borgar- og bæjarstjórnir: Látið okkur fá sama fjármagn og sambærilegir skólar. Ekki gera okkur það sem gert er í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem við fáum minna fjármagn en aðrir skólar og rukkum svo foreldrana um mismuninn. Við erum pínd í átt sem ég hef aldrei viljað fara. Ég hef alltaf sagt: Skóli er á ábyrgð samfélagsins. Það á ekki að rukka foreldra eða sjúklinga um háar fjárhæðir eða láta mismunun byggjast upp í samfélaginu á grundvalli peningalegra forréttinda. Komið með í þessa baráttu að búa til skóla þar sem kennarar með frábærar hugmyndir geta stofnað skóla sem þeir skapa og þróa og fá sama fjármagn og þeir hefðu ella fengið annars staðar.

Hjá Hjallastefnunni eru lægstu skólagjöldin hjá hinum sjálfstætt starfandi skólum og það er af því að ég er búin að vinna með barnafjölskyldum í yfir 30 ár og veit að það munar um það hvort skólagjald er 13.000 eða 17.000. Við eigum enga fjármuni en leitum allra leiða til að koma til móts við foreldra. Ef við værum erlendis væru án efa háskólar og fleiri stofnanir sem myndu taka okkur upp á arma sína, en það er rétt að taka fram að Háskólinn í Reykjavík er að vinna rannsóknir á vettvangi Hjallastefnunnar. Við sem höfum unnið að Hjallastefnunni árum saman búum yfir þekkingu sem er einstök á heimsvísu.“

Hvernig finnst þér skólafólk taka í hugmyndir þínar?

„Ég hélt að skólafólk yrði afskaplega ánægt með mig þegar ég leyfði mér að segja á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins að stór hópur barna væri ekki að virka innan skólakerfisins og við værum að eyðileggja þau með því að troða í þau námsefni sem þau mundu aldrei getað tileinkað sér og senda þau í endalausa aukatíma í eðlisfræði og öðrum greinum í þeirri trú að þau mundu þakka fyrir það seinna. Ég hitti þessa krakka og þau eru með frábæra hæfileika, bara ekki hæfileika til að stunda bóknám. Ég vil sjá skóla sem strax á miðstigi er kominn með fleiri brautir fyrir þessa krakka, þannig að á unglingastigi séu þau að fást við það sem þau eru góð í og viðhaldi þannig sjálfsvirðingu, námsáhuga og sjálfstrausti. Við erum að eyðileggja þessa krakka með því að pína þau til að læra fög sem þau munu aldrei hafa á valdi sínu. Ég sagði við atvinnulífið: Þetta eru krakkarnir sem þið viljið fá því þetta eru börn sem eru frábær í verknámi. Komið þið með, við skulum gera skóla fyrir þessa krakka að veruleika. Atvinnulífið varð mjög kátt en skólafólk aftur á móti mjög æst. En ég veit reyndar aldrei hvenær fólk verður kátt með það sem ég hef að segja. Skömmu seinna skrifaði ég pistil um að við yrðum að gefa börnum okkar meiri tíma, ekki bara geyma þau endalaust í leikskólum, grunnskólum, tómstundastarfi þannig að þau væru örmagna og útkeyrð. Ég hugsaði: Nú verða allir brjálaðir en þá varð þjóðin þetta líka hamingjusöm!

Þetta minnir mig á þegar ég byrjaði að kynjaskipta í bekki. Ég var viss um að foreldrar yrðu fokvondir en skólakerfið og jafnréttisráð yrði rífandi hamingjusamt að nú væri eitthvað nýtt prófað. Þetta var alveg þveröfugt, foreldrar biðu í röðum eftir að vinna með okkur en jafnréttisráð fékk kærur til sín og leit á þetta sem skelfilega varhugavert. Elítan fór gegn okkur af fullu afli. En ég er eins og Soffía frænka, syng minn söng og eins og hún sagði sjálf: Hann á stundum við og stundum ekki.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka