Skólakerfið er á niðurleið

Margrét Pála Ólafsdóttir.
Margrét Pála Ólafsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mar­grét Pála Ólafs­dótt­ir seg­ir að þörf sé á grund­vall­ar­breyt­ing­um í skóla­kerf­inu. Hún vill sjá gjör­breytta náms­skrá fyr­ir landið í heild þar sem skól­ar hefðu aukið frelsi. Hún seg­ir þá sem unnið hafa að Hjalla­stefn­unni búa yfir þekk­ingu sem sé ein­stök á heimsvísu. 

Mar­grét Pála Ólafs­dótt­ir, höf­und­ur Hjalla­stefn­unn­ar, er landsþekkt fyr­ir frum­kvöðlastarf sitt í skóla­mál­um. Um­svif­in hjá Hjalla­stefn­unni fara sí­vax­andi og for­eldr­ar sækj­ast mjög eft­ir því að koma börn­um sín­um í þá skóla sem Mar­grét Pála rek­ur víðs veg­ar um land og biðlist­ar eru lang­ir. Hjalla­stefn­an er 25 ára nú í haust, starfs­menn eru 460 og nem­end­ur rúm­lega 2000, í þrett­án leik­skól­um og fimm grunn­skól­um í tíu sveita­fé­lög­um um allt land.

Mar­grét Pála er fyrst spurð hvað hún telji gera að verk­um að fólk sæk­ist svo mjög eft­ir því að setja börn sín í skóla Hjalla­stefn­unn­ar. „Þegar kem­ur að leik­skól­un­um okk­ar tel ég að það séu yf­ir­lýst mark­mið okk­ar um kær­leika, já­kvæðni og gleði sem höfði til for­eldra,“ seg­ir hún. „Við vilj­um fyrst og síðast að hvert ein­asta barn sem kem­ur til okk­ar skynji óend­an­leg­an kær­leika og já­kvæðni gagn­vart sér. Í fyrsta sinn í sögu Vest­ur­landa er verið að út­vista upp­eldi barna, eins og ég kallað það, það er að segja fjöl­skyld­ur, sem bera megin­á­byrgð á börn­um sín­um sam­kvæmt lög­um, hafa af­hent þau öðrum stór­an part af deg­in­um. Börn eru ekki einu sinni far­in að mynda geðtengsl þegar þau eru send í leik­skóla. Þegar börn­in koma til okk­ar, sem erum í launuðu starfi við að sinna þeim, þá verðum við að finna leiðir til að hvert ein­asta barn fari inn í hjarta okk­ar sem allra fyrst.

Hvað varðar grunn­skóla­stigið þá held ég að þar þyki for­eldr­um eft­ir­sókn­ar­verðast að við erum með fá­menn­ari hópa held­ur en geng­ur og ger­ist í skóla­kerf­inu, en al­gengt viðmið er 24 börn í bekk með einn kenn­ara. Ég held líka að for­eldr­ar leiti til okk­ar vegna þess að við erum með opna kennslu­hætti þar sem til dæm­is barn sem orðið er þreytt eft­ir tíu mín­útna ein­beit­ingu get­ur farið út og hlaupið í hring og komið svo aft­ur inni í skóla­stof­una. Ég held að fólk sé að sækja í frjáls­ræði og sveigj­an­leika í grunn­skól­um okk­ar ásamt kær­leika og já­kvæðni, frem­ur en marg­ar síður af hug­mynda­fræði Hjalla­stefn­unn­ar.“

Eins og að færa fjall úr stað

Finnst þér að þurfi að um­bylta ís­lenska skóla­kerf­inu og ef þér finnst það hvað þarf þá að gera, að þínu mati?

„Skól­arn­ir eru troðfull­ir af hug­sjóna­fólki á lág­um laun­um sem lang­ar til að láta gott af sér leiða en skólafast­inn, sá rammi sem ákveður hvað skóli á að vera, bygg­ist á hug­mynd­um gamla iðnaðarskól­ans og hvað sem öll­um nýj­ung­um og fjöl­breytni líður þá eru náms­skrá­in, stunda­skrá­in, kjara­samn­ing­ar og viðhorf okk­ar ríg­negld niður. Að hnika til þess­um skólafasta er eins og að færa fjall úr stað. Ef ég mætti ráða þá fengju skól­arn­ir frelsi, átak yrði í vit­und­ar­vakn­ingu til for­eldra um það hvað skóli á að standa fyr­ir og sam­in yrði gjör­breytt nám­skrá fyr­ir landið í heild þar sem skól­ar hefðu frelsi að helm­ingi um það sem væri kennt.

Læsi, stærðfræði, tungu­mál og tækni eru grund­vall­ar­atriði í nám­skrá en síðan ætti að fara eft­ir vilja, áhuga­sviði og getu barna hvar þau fá að njóta sín. Skól­inn er ekki leng­ur hand­hafi þekk­ing­ar eins og hann var og kenn­ar­inn er ekki sá sem kann og veit mest, því við erum með alla heims­ins tækni í sím­an­um. Skylda skól­ans er að viðhalda námsáhuga barna og börn hafa svo sann­ar­lega námsáhuga. Hef­urðu fylgst með litlu barni sem er að læra að ganga? Ef þú hef­ur gert það þá hlýt­urðu að lúta höfði í auðmýkt. Ef ég myndi detta jafnoft og meiða mig jafnoft og mistak­ast aft­ur og aft­ur eins og þessu litla barni þá væri ég búin að segja: Ég get þetta ekki, ég er hætt að reyna. En litla barnið held­ur áfram. Ég held að það hug­leiði aldrei: Ég mun ekki geta þetta. Það hef­ur enda­lausa trú á því að það tak­ist. Ef við viðhöld­um námsáhuga barna og sjálfs­trausti þá munu þau geta lært allt.

Við vilj­um að börn séu læs og njóti bók­mennta, búi yfir talna­skiln­ingi og hafi góða þekk­ingu á grund­vall­ar-reikniaðgerðum, læri sem mest af tungu­mál­um og hafi vald á tækni. Þetta eru lyk­ilþætt­ir sem skól­inn á að vinna að en frelsi ætti að ríkja um annað. Ég myndi vilja sjá minni skóla þar sem skóla­fólk væri hvatt til að finna eig­in leiðir og þróa þær. Síðan er annað mik­il­vægt atriði sem ekki má gleyma sem er að við þurf­um að stíga til baka í sam­bandi við blönd­un í bekki, þar sem sér­deild­ir og sér­skól­ar eru horfn­ir. Trú­lega þurfti sú þróun að blanda í bekki að eiga sér stað en hún hef­ur ekki verið til góðs og kenn­ar­ar eru að bug­ast und­an gíf­ur­leg­um sérþörf­um nem­enda sem þeim er gert að sinna. Ég veit að það er mjög óvin­sælt að segja þetta en ég veit líka að marg­ir for­eldr­ar velja Hjalla­stefn­una á grunn­skóla­stig­inu af ótta við að barnið þeirra falli ekki inn í hefðbundið grunn­skóla­kerfi. Ef skól­inn pass­ar bara fyr­ir suma þá erum við á röng­um stað og þá dug­ar ekki að segja í lög­um að hann passi fyr­ir alla.“

Hef­urðu raun­veru­lega trú á því að breyt­ing­ar eins og þær sem þú ert að tala um verði að raun­veru­leika í ís­lenska skóla­kerf­inu?

„Ég veit að það er ekki hægt að breyta kerfi með því að smella fingr­um. Mín lausn er þessi: Lát­um skóla sem vilja prófa sig áfram fá meira frelsi. Í Dan­mörku þurfa sjálf­stætt starf­andi skól­ar, sem eru byggðir utan um ákveðna hug­mynda­fræði, ekki að kenna nema 75 pró­sent af lands­náms­skránni og hafa svo frelsi til viðbót­ar. Ég vildi sjá gal­opn­un gagn­vart sjálf­stætt starf­andi skól­um sem myndu prófa sig áfram með for­eldr­um og kenn­ur­um og þannig smátt og smátt sveigja kerfið til breyt­inga.

Í grunn­skól­an­um er verið að gera marga frá­bæra hluti en það er skólafast­inn sem ég gagn­rýni. Marg­ir hafa tekið því sem svo að ég telji kenn­ara ekki valda starfi sínu, en þau viðbrögð bera vott um viðkvæmni í kerfi sem er í vörn. Skóla­kerfið er á niður­leið. Grund­vall­ar­breyt­ing hef­ur ekki orðið allt frá því iðnaðar­kennsl­an hófst og fólk var látið vinna ákveðinn tíma til að skila af­köst­um og ljúka við hluti. Svo var ákveðið að gera það sama við börn: Höf­um þau hérna í 40 mín­út­ur þar sem kenn­ar­inn kenn­ir upp við töflu og þau til­einka sér það sem hann seg­ir.“

Hrein­skipt­in sam­töl

Þú átt sam­skipti við stjórn­mála­menn vegna vinnu þinn­ar í skóla­mál­um. Finn­urðu mun á því hvernig stjórn­mála­menn taka hug­mynd­um þínum eft­ir því hvort þeir fylgja hægri stefnu eða eru til vinstri?

„Ég sagði ein­hvern tíma að ég væri hvorki hægri né vinstri mann­eskja. Ég er skóla­mann­eskja. Börn og ung­menni, hag­ur þeirra, líðan og vel­gengni eru mitt hjart­ans mál. Ég kem hjarta mínu ekki til að slá ann­ars staðar, hvað sem ég reyni. Þess vegna fór ég út úr kerf­inu á sín­um tíma og fór sjálf að reka leik­skóla og skóla til að opna fjöl­breytt­ari leiðir. Það var ekki vegna þess að mig langaði til að fara út úr kerf­inu held­ur vegna þess að ég hafði ekki fengið tæki­færi til að gera það sem mér fannst nauðsyn­legt að gera.

Hægri menn hafa tekið hug­mynd­um mín­um vel en vinstri menn, gaml­ir vin­ir mín­ir og sam­herj­ar, hafa aft­ur á móti tekið þeim eins og ég vilji am­er­íska einka­væðingu þar sem for­eldr­ar borga og fyr­ir­tæki græða. Ég er um þess­ar mund­ir að eiga mjög hrein­skipt­in sam­töl við vini mína þar sem ég segi þeim að það særi mig óend­an­lega sem sjálf­stæða fé­lags­hyggju­konu að fólk vilji ekki skoða inni­haldið í þess­um nýja sjálf­stæða rekstri held­ur horfi til Am­er­íku þar sem for­eldr­ar eru jafn­vel að borga all­an kostnað við mennt­un barna sinna.

Á sín­um tíma var Garðabær, und­ir stjórn Ásdís­ar Höllu Braga­dótt­ur sjálf­stæðis­konu, eini aðil­inn sem vildi vinna með mér á grunn­skóla­stigi. Báðum þótti okk­ur óskap­lega merki­legt þegar við sett­umst niður árið 2003, hún bæj­ar­stjóri í Garðabæ, íhalds­bæl­inu sjálfu, og ég, gamli komm­inn, og rædd­um þann mögu­leika að búa til sjálf­stætt starf­andi skóla þar sem ég hefði frelsi um það sem ég vildi gera og fengi sama fjár­fram­lag og aðrir skól­ar í bæn­um. Það voru sjálf­stæðis­menn sem vildu fara þessa leið, vinstri menn fóru í vörn. Í öll­um sveit­ar­fé­lög­um þar sem ég kom ná­lægt leik­skóla­rekstri hélt ég alltaf sömu ræðuna: Ég er til­bú­in að opna til­raun­skóla sem próf­ar sig áfram og ger­ir nýja hluti, bakkið mig bara upp. Hvað held­urðu að ég hafi oft fengið nei?“

Ein­stök þekk­ing á heimsvísu

Nú borga for­eldr­ar skóla­gjöld fyr­ir börn sín sem eru nem­end­ur í skól­um Hjalla­stefn­unn­ar. Ertu sátt við þau skóla­gjöld?

„Það er eng­inn vandi að fyr­ir­byggja að for­eldr­ar þurfi að borga skóla­gjöld. Lausn­in er ein­föld, ég segi við borg­ar- og bæj­ar­stjórn­ir: Látið okk­ur fá sama fjár­magn og sam­bæri­leg­ir skól­ar. Ekki gera okk­ur það sem gert er í Reykja­vík og Hafnar­f­irði þar sem við fáum minna fjár­magn en aðrir skól­ar og rukk­um svo for­eldr­ana um mis­mun­inn. Við erum pínd í átt sem ég hef aldrei viljað fara. Ég hef alltaf sagt: Skóli er á ábyrgð sam­fé­lags­ins. Það á ekki að rukka for­eldra eða sjúk­linga um háar fjár­hæðir eða láta mis­mun­un byggj­ast upp í sam­fé­lag­inu á grund­valli pen­inga­legra for­rétt­inda. Komið með í þessa bar­áttu að búa til skóla þar sem kenn­ar­ar með frá­bær­ar hug­mynd­ir geta stofnað skóla sem þeir skapa og þróa og fá sama fjár­magn og þeir hefðu ella fengið ann­ars staðar.

Hjá Hjalla­stefn­unni eru lægstu skóla­gjöld­in hjá hinum sjálf­stætt starf­andi skól­um og það er af því að ég er búin að vinna með barna­fjöl­skyld­um í yfir 30 ár og veit að það mun­ar um það hvort skóla­gjald er 13.000 eða 17.000. Við eig­um enga fjár­muni en leit­um allra leiða til að koma til móts við for­eldra. Ef við vær­um er­lend­is væru án efa há­skól­ar og fleiri stofn­an­ir sem myndu taka okk­ur upp á arma sína, en það er rétt að taka fram að Há­skól­inn í Reykja­vík er að vinna rann­sókn­ir á vett­vangi Hjalla­stefn­unn­ar. Við sem höf­um unnið að Hjalla­stefn­unni árum sam­an búum yfir þekk­ingu sem er ein­stök á heimsvísu.“

Hvernig finnst þér skóla­fólk taka í hug­mynd­ir þínar?

„Ég hélt að skóla­fólk yrði af­skap­lega ánægt með mig þegar ég leyfði mér að segja á aðal­fundi Sam­taka at­vinnu­lífs­ins að stór hóp­ur barna væri ekki að virka inn­an skóla­kerf­is­ins og við vær­um að eyðileggja þau með því að troða í þau náms­efni sem þau mundu aldrei getað til­einkað sér og senda þau í enda­lausa auka­tíma í eðlis­fræði og öðrum grein­um í þeirri trú að þau mundu þakka fyr­ir það seinna. Ég hitti þessa krakka og þau eru með frá­bæra hæfi­leika, bara ekki hæfi­leika til að stunda bók­nám. Ég vil sjá skóla sem strax á miðstigi er kom­inn með fleiri braut­ir fyr­ir þessa krakka, þannig að á ung­linga­stigi séu þau að fást við það sem þau eru góð í og viðhaldi þannig sjálfs­virðingu, námsáhuga og sjálfs­trausti. Við erum að eyðileggja þessa krakka með því að pína þau til að læra fög sem þau munu aldrei hafa á valdi sínu. Ég sagði við at­vinnu­lífið: Þetta eru krakk­arn­ir sem þið viljið fá því þetta eru börn sem eru frá­bær í verk­námi. Komið þið með, við skul­um gera skóla fyr­ir þessa krakka að veru­leika. At­vinnu­lífið varð mjög kátt en skóla­fólk aft­ur á móti mjög æst. En ég veit reynd­ar aldrei hvenær fólk verður kátt með það sem ég hef að segja. Skömmu seinna skrifaði ég pist­il um að við yrðum að gefa börn­um okk­ar meiri tíma, ekki bara geyma þau enda­laust í leik­skól­um, grunn­skól­um, tóm­stund­a­starfi þannig að þau væru ör­magna og út­keyrð. Ég hugsaði: Nú verða all­ir brjálaðir en þá varð þjóðin þetta líka ham­ingju­söm!

Þetta minn­ir mig á þegar ég byrjaði að kynja­skipta í bekki. Ég var viss um að for­eldr­ar yrðu fokvond­ir en skóla­kerfið og jafn­rétt­is­ráð yrði ríf­andi ham­ingju­samt að nú væri eitt­hvað nýtt prófað. Þetta var al­veg þver­öfugt, for­eldr­ar biðu í röðum eft­ir að vinna með okk­ur en jafn­rétt­is­ráð fékk kær­ur til sín og leit á þetta sem skelfi­lega var­huga­vert. Elít­an fór gegn okk­ur af fullu afli. En ég er eins og Soffía frænka, syng minn söng og eins og hún sagði sjálf: Hann á stund­um við og stund­um ekki.“

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka