Úttekt á hækkun matarskatts

Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir.
Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, sendi í dag bréf til Velferðarvaktarinnar þar sem farið er þess á leit að sérstök úttekt verði gerð á áhrifum fyrirætlunar ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á matvælum og öðrum vörum í neðra þrepi virðisaukaskatts frá sjö prósentum upp í tólf prósent.

Bréfið kynnti hann á blaðamannafundi í húsnæði Samfylkingarinnar á Hallveigarstíg í dag.

Velferðarnefnd er samkvæmt erindisbréfi ætlað að huga velferð og afkomu efnalítilla fjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra og afla upplýsinga um velferð þeirra sem búa við fátækt svo draga megi úr henni. 

Stærstur hluti tekna í matvæli

Í bréfinu segir að lauslegar greiningar sem Samfylkingin hefur gert bendi til þess að breytingin muni koma lágtekjufjölskyldum hlutfallslega verst „enda fer stærri hluti tekna lágtekjufólks til kaupa á matvælum en hjá hærri tekjuhópum.“ Þá er einnig vísað til úttektar Alþýðusambands Íslands á efninu.

„Þar við bætast svo áform í fjárlagafrumvarpi um hækkun viðmiðunarfjárhæða í greiðsluþátttöku lyfja, sem munu líka leggjast þyngst á lágtekjufólk.“

Á blaðamannafundinum sagði Árni að erfitt væri að sjá að boðaðar mótvægisaðgerðir myndu ná að vega að fullu leyti á móti þessari kjaraskerðingu hjá lágtekjufólki, þar sem barnabætur munu ekki eftir boðaða hækkun ná því sem þær voru árið 2013 auk þess sem öll lágtekjuheimili væru ekki með börn á framfæri.

Ríkisstjórnin hugsi sinn gang

„Mótvægisaðgerðin við matarskattshækkuninni felst í lækkun á óskyldum vöruflokkum sem eru síður þeir sem eru í innkaupakörfu lágtekjufjölskyldna,“ sagði hann. „Við viljum tryggja það að ríkisstjórnin hugsi sinn gang.“

Aðspurður hvaða mótvægisaðgerðir myndu henta betur segir hann þingmenn Samfylkingar vera sammála um að gott væri að fara í einföldun á skattkerfinu og teldu vörugjöld óþarfa skattlagningu. „En það eru til margar aðrar leiðir. Til dæmis er í tvígang búið að veita afslátt af veiðigjaldi og fallið var frá hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu. Hvað varðar matarskatt værum við tilbúin að ræða hækkun á neðra þrepi ef góðar mótvægisaðgerðir kæmu á móti og má þar til dæmis nefna lækkun á álagninu á innfluttum matvælum,“ segir Árni og bætir við að það sé í raun undrunarefni að ríkisstjórnin ráðist ekki í það á sama tíma og skortur sé á innfluttum matvælum.

Samfylkingin hefur farið fram að úttekt verði gerð á áhrifum …
Samfylkingin hefur farið fram að úttekt verði gerð á áhrifum hækkunar á neðra þrepi virðisaukaskatts. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert