Hólmsteinn Brekkan, framkvæmdastjóri Samtaka leigjenda á Íslandi, segir réttarstöðu leigjenda bága og að kerfið sem eigi að koma þeim til bjargar í neyð bregðist þeim síendurtekið.
„Sýslumenn eiga að bera hag almennings fyrir brjósti og sjá til þess að fólk hafi samastað en í staðinn draga þeir leigjendur út og skera þá á háls,“ segir Hólmsteinn.
Í síðustu viku greindi mbl.is frá ungu pari í Þorlákshöfn sem gert hefur verið að flytja út úr leiguhúsnæði sínu með aðeins viku fyrirvara í kjölfar þess að Landsbankinn keypti húsið á nauðungaruppboði. Parið á þrjú börn og hefur afar takmörkuð fjárráð en hefur komið að lokuðum dyrum jafnt hjá Landsbankanum, sveitarfélaginu Ölfusi sem og Barnaverndarstofu.
Hólmsteinn vandar Landsbankanum ekki kveðjurnar en segir þó ábyrgðina fyrst og fremst liggja hjá íslenska ríkinu og sveitarfélögunum „Sveitarfélögin eiga að sjá til þess að fólk eigi í einhver hús að vernda jafnvel þótt aðeins sé um neyðarúrræði að ræða en því miður er sú skylda hunsuð um allt land. Ríki og sveitarfélög verða að taka höndum saman til að vinna bót á þessu máli og þá sérstaklega þegar börn eiga í hlut.“
Í síðustu viku svaraði Umboðsmaður barna fyrirspurn samtakanna um börn í leiguíbúðum. Sagði embættið stöðu mála áhyggjuefni enda sé mikið óöryggi á leigumarkaði nú og eins séu dæmi um að börn búi við óviðunandi eða jafnvel heilsuspillandi aðstæður. Hólmsteinn segir ríkið trassa lögbundnar skyldur sínar við börn og barnafjölskyldur. Hann bendir á að óöryggið hafi ekki síst áhrif á andlega heilsu barna og telur ljóst að fjölgun á biðlistum inn á barna- og unglingageðdeild eftir hrun megi að miklu leyti rekja til aðstæðna á leigumarkaði.