„Orðlausir af hrifningu“

Mýflug flýgur fjölmargar ferðir á dag upp að gosstöðvunum með …
Mýflug flýgur fjölmargar ferðir á dag upp að gosstöðvunum með Íslendinga jafnt sem erlenda ferðmenn. Axel Sigurdarson

Flugfélagið Mýflug hefur annar vart eftirspurn eftir útsýnisflugferðum yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni og segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, að fullbókað sé á hverjum degi. Hann segir að jafnt Íslendingar og erlendir ferðamenn sæki í ferðirnar. „Viðbrögðin eru alveg stórkostleg og eru menn jafnan orðlausir af hrifningu,“ segir Leifur um upplifun flugfarþeganna þegar eldsumbrotin blasa við úr lofti.

„Veðrið verið að stríða okkur“

Mýflug hefur til umráða þrjár flugvélar og hafa tvær þeirra verið í notkun undanfarið. Þær taka samtals þrettán farþega og segir Leifur hátt í sjö ferðir farnar dag hvern. Veðrið hafi þó sett strik í reikninginn síðustu daga þar sem miklir vindar hafa verið á svæðinu og valdi sandfoki sem byrgi fólki sýn. „Við förum ekki uppeftir nema við séum sæmilega sáttir sjálfir,“ segir Leifur og bætir við að fluginu stafi engin hætta af gosinu sjálfu og full aðgát sé höfð þegar flogið er yfir svæðið.

Þekkja svæðið mjög vel

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Mýflugsmenn fljúga yfir gossvæði en farnar hafa verið útsýnisferðir yfir Öskju og Kverkfjöll í um 30 ár á vegum félagsins. Flogið er frá Reykjahlíðarflugvelli í Mývatnssveit og segir Leifur að ef völlurinn lokast í vetur færi þeir starfsemina á Akureyri þar sem þeir hafa einnig aðsetur. „Við höldum áfram svo lengi sem veður og gos gefa,“ segir Leifur að lokum.

Eldgosið í Holuhrauni séð úr lofti.
Eldgosið í Holuhrauni séð úr lofti. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert