„Við höfum undanfarna mánuði orðið vitni að sérstakri atburðarás vegna hins svokallaða lekamáls,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, við upphaf sérstakrar umræðu sem fram fór á Alþingi í dag.
Viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins við þeirri stöðu sem upp kom vegna lekamálsins var gert að umræðuefni í ávarpi Árna Páls. Benti hann m.a. á að stjórnmálamenn eigi að bera ábyrgð á gerðum sínum til að hlífa stjórnkerfinu við gagnrýni.
„Þegar aðstoðarmaður ráðherra er ákærður fyrir að misfara með opinber gögn í ráðuneyti ráðherrans, þá var ljóst að ráðherrann gat ekki setið áfram,“ sagði Árni Páll. „Í öllum öðrum löndum, á öllum tímum og á Íslandi allt fram til þessa dags hefði það leitt til þess að ráðherrann axlaði pólitíska ábyrgð og segði af sér,“ sagði hann ennfremur og benti á að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi hins vegar „ekki ráðið við þá leið.“
„Innanríkisráðherra heldur áfram að vera með fullnustu refsinga en dómsmálaráðherra með lögregluna. Innanríkisráðherra er áfram með fullnustu réttarfars en dómsmálaráðherra með dómstólana. Ekkert sýnir betur hversu sundurlaust réttarvörslukerfið í landinu er orðið.“
Að sögn Árna Páls má finna fjölmörg dæmi í nágrannalöndum okkar um afsögn ráðherra í áþekkum málum og því sem nú er uppi hér á landi. „Það er hins vegar mjög alvarlegt ef Sjálfstæðisflokkurinn ræður ekki við að finna pólitískri ábyrgð farveg. Ef pólitíkin bregst þá á ekki að breyta stjórnkerfinu.“