Íslendingar eru að verða aumingjar

Þeir eru hraustir Strandamennirnir og bræðurnir Guðjón og Benjamín Kristinssynir.
Þeir eru hraustir Strandamennirnir og bræðurnir Guðjón og Benjamín Kristinssynir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þeir eru hraustir Strandamennirnir og bræðurnir Guðjón og Benjamín Kristinssynir. Þeim líkar illa að kunnátta og verkmenning hvers konar sé að hverfa, til dæmis hleðslukunnátta. Þeir hlaða nú vegg þar sem hver steinn vegur frá 30 til 120 kílóum. Og þeir kunna að segja sögur. Og bæta vel í þær.

Hleðslukunnáttan liggur í ættinni. Barna-Jónas, langalangalangafi okkar, hlóð utan um sig fangelsi hér í Reykjavík á sínum tíma. Hann vann við að hlaða Stjórnarráðshúsið, sem áður þjónaði sem tugthús, en hann var dæmdur fyrir að stela tveimur rollum. Því var klínt á hann að ósekju. Hann var uppreisnarmaður eins og sönnum Strandamanni sæmir og gerðist lífvörður Jörundar hundadagakonungs.“ Þannig byrjar hún sögustundin með þeim bræðrum Guðjóni og Benjamín Kristinssonum frá Dröngum á Ströndum, þar sem ég kem til fundar við þá á túninu við Höfða í Reykjavík, en þar strita þeir við að hlaða vegg.

Einhverjum durgum smalað saman til að hlaða vegginn

„Við erum að hlaða upp vegg sem var illa farinn og að mestu hruninn. Það getur verið að hann hafi verið hluti af gömlum sjóvarnargarði, við vitum það þó ekki. Veggurinn hefur líklega verið upphaflega byggður um eða fyrir aldamótin 1900 en þegar hann hrundi um 1960 var einhverjum durgum smalað saman til að hlaða hann aftur og þeir hafa af einhverjum ástæðum haft vegginn óvenjulegan, vegna þess að grófa og ójafna hliðin snýr inn en sú slétta út. Páll Ingólfur Arnarson, sem stjórnar verkinu, vildi hafa þetta áfram svona svo við gerum þetta eins og durgarnir gerðu. Ég veit ekki til að nokkur annar veggur í borginni sé með þessu lagi; fallega sléttur og skorinn að utan en náttúrulegur eins og fjallsskriða að innan,“ segir Guðjón og bætir við að fyrir vikið sé veggurinn stórmerkilegur skúlptúr. Auk þess séu garður og fornminjar undir veggnum.

„Sá hefur sennilega verið hlaðinn af landnámsmanninum afa hans Páls Ingólfs Arnarsonar, sem ég nefndi áðan og er verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg,“ segir hann gáskafullur og lítur til Páls, sem er einmitt kominn til að heilsa upp á þá bræður.

Faldi vínið of vel fyrir konunni og fann það ekki sjálfur

Steinarnir í veggnum eru þungir, frá 30-120 kíló hver, og veggurinn er um 25 metra langur og einn og tuttugu á hæð. Þeir hleðsubræður hafa unnið við að hlaða vegginn í mánuð en eiga ekki mikið eftir. „Þetta er helvítis strit, því er ekki að neita.“ Guðjón segir að þeir hafi fundið eldgömul flöskubrot undir veggnum þegar þeir fóru að hreyfa við grjótinu. „Við höldum að það sé eftir sterka Strandamenn sem hafa verið fengnir í hleðsluverkið, því það voru eintómir aumingjar hér fyrir sunnan,“ segja þeir og skellihlæja. Og þá kemur sagan af Húnvetningnum á Hvammstanga sem faldi svo vel vínið fyrir konunni sinni að hann fann það ekki sjálfur. „Löngu seinna, þegar hann var dauður og úldinn og nýtt fólk búið að kaupa húsið, fundust nokkrar fullar flöskur á milli þilja þegar unnið var við þakviðgerðir.“

Vélvæðing fitar bændur

Og þær flæða fram sögurnar, með mátulegum skreytingum sem ekki er hægt að hafa eftir. Ein er sagan af kirkjunni sem var stolið: „Norskur karl gaf kirkju á Hesteyri á sínum tíma, honum fannst fólk víst hlúa illa að kristninni þar. En Súðvíkingar stálu síðan þessari kirkju eftir að Hesteyringar fóru, þeim fannst ómögulegt að kirkjan stæði þar ónotuð. Það varð allt vitlaust, en hún stendur enn í Súðavík.“ Og upp kemur umræða um hvernig landinn sé að verða. „Íslendingar eru að verða aumingjar, þeir hanga í tölvum alla daga. Þeir eru að hverfa frá gömlum verkum og kunnáttu. Örfáir kunna þá verkmenningu sem felst til dæmis í vegghleðslum og alls konar störfum til sjós eða í landbúnaði. Bændur eru orðnir svo vélvæddir að þeir verða feitir og vögusíðir og geta vart velt heyrúllu. Ef þeir hlaupa upp brekku slá þeir ístrunni undir hökuna,“ segja þeir og skellihlæja. Vert er að taka fram að allt er þetta í gamni sagt til þess að gleðja blaðamann.

Kerling með nef eins og baugspjót á skútu

Þegar kemur að kveðjustund tökum við svolítið í nefið og þá kemur saga af kerlingu sem tók rosalega mikið í nefið: „Hún var með ofboðslegt nef, það var eins og baugspjót á seglskútu. Hún var vön að fá íslenskt tóbak en hrekkjalómur barnabarn hennar gaf henni mentoltóbak og hún saug það upp í nefið í stórum skammti, augun urðu tárfull og hún varð fyrst rauð en síðan blá sem hel, svitinn spratt út og hún saup hveljur. En hún lifði það af. Og ekki var hakan á henni minni en nefið. Þegar hún var orðin tannlaus að mestu og fékk að naga ógeðslegt síðurif úr belju læstust nef og haka utan um rifið sem stóð út til beggja hliða. Það var mikilfengleg sjón.“

Þeir eru hraustir Strandamennirnir og bræðurnir Guðjón og Benjamín Kristinssynir.
Þeir eru hraustir Strandamennirnir og bræðurnir Guðjón og Benjamín Kristinssynir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Vegghleðslumenn að störfum
Vegghleðslumenn að störfum Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert