Nýr goshver við Gunnuhver

Nýi hverinn er tilkomumikill.
Nýi hverinn er tilkomumikill. Olgeir Andresson

Ljósmyndarinn Olgeir Andrésson segir nýjan goshver hafa myndast við Gunnuhver á Reykjanesi. Eins og mbl.is hefur greint frá hefur aukin virkni hlaupið í hverinn síðustu daga og Olgeir, sem hefur í gamni kallað sig útigangsljósmyndara, gerði sér ferð út á Reykjanes til að kynna sér aðstæður.

„Þegar ég var búin að skoða og ljósmynda Gunnuhver ákvað ég að fara á önnur svæði þarna í kring. Þegar ég kom á eitt uppáhaldssvæðið  mitt sá ég að það er kominn leir í kringum einn hverinn sem ekki hefur verið undanfarin ár,“ segir Olgeir og segist ekkert hafa skilið hvaðan leirinn kom þar sem öll virkni virtist úr hvernum sem vanalega gutlar nokkuð í.

„Ég geng svona tíu metra í burtu og byrja að ljósmynda annað og þá heyri ég þessi svakalegu læti fyrir aftan mig. Þá byrjaði hverinn að gjósa og náði upp í svona sjö til tíu metra.“

Olgeir telur að stutt hafi verið síðan hóf að gjósa upp úr hvernum þar sem leirinn í kringum hverinn var aðeins þar sem ríkjandi vindátt hafði blásið honum. Hann segir gosin sem hann varð vitni að hafa verið mishá en að gosið hafi á tíu mínútna fresti.

Myndband Olgeirs af gosi úr hvernum má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert