„Staðan er nokkuð svipuð og í gær. Það dregur úr þessu. Baugur er að verða sífellt máttlausari en gosið í gígunum þar fyrir norðan er enn ansi kröftugt. Þannig að það er komin stór hrauntjörn þarna og síðan er kominn einn lítill gígur hérna á milli Suðra og Baugs sem við köllum krakkann og byrjaði að myndast í fyrradag. En það eru engar meiriháttar breytingar frá í gær.“
Þetta segir Ármann Höskuldsson jarðskjálftafræðingur í samtali við mbl.is. Hins vegar hafi Baugur verið í talsverðu stuði enn á mánudaginn en núna séu aðeins strókar á einnar eða tveggja mínútna fresti. Gosmökkurinn rísi að sama skapi ekki eins hátt því það sé minna varmastreymi. „Þannig að allt sem við sjáum hér á yfirborðinu gefur til kynna að dregið hafi úr hraunstreyminu upp. En aftur á móti vitum við líka að það er að flæða á fullu inn í kerfið. Þetta er eitthvað sem mátti búast við. Að það drægi úr þessu hægt og rólega. Síðan lokast þetta bara þar til kerfið er tilbúið aftur að senda upp kviku.“
„Þetta er bara byrjunin“
Spurður hvort það sé næsta víst að eldgos verði aftur þegar gosinu í Holuhrauni ljúki segir Ármann svo vera. „Það eru 99,9% líkur á að það verði aftur eldgos. Þetta er bara byrjunin.“ Eina spurningin sé hvar það verði og hvenær. Mestu jarðskjálftarnir séu núna undir Dyngjujökli sem sé frekar óheppilegt. En vonir standi til þess að frekari eldgos verði á sléttunni norður af Vatnajökli eins og það sem er yfirstandandi en verði ekki undir jökli. Spurður hvort næsta eldgos gæti orðið í Bárðarbungu sjálfri segir hann:
„Það er ekkert sem segir að það geti ekki orðið. Við erum með þessa skjálfta sem eru þar og menn greina þarna eitthvert sig og síðan eru hugmyndir um það hvers vegna það sé. Ein slík er að það leki svo mikið út úr Bárðarbungu að það sígi.“ Önnur hugmynd sé sú að svo mikil kvika sé að safnast fyrir í Bárðarbungu og þenjist kvikuhólfið út losi það um hringsprunguna sem sé þar með þeim afleiðingum að tappinn í henni sígi. „Þannig að það eru kannski meiri líkur en minni sem benda til þess að það sé að safnast mikil kvika í kvikuhólfinu á Bárðarbungu.“
Fyrirvarinn gæti verið hálftími
„Þannig að þó að það dragi úr þessu eldgosi hér í Holuhrauni þá þýðir það engin endalok. Það þýðir bara að það komi annað gos eftir tvo daga eða þrjár vikur eða eitthvað slíkt. Kvikan er ennþá að koma inn en spurningin er bara hvar hún kemur næst upp. Á einhverjum tímapunkti verður of erfitt fyrir kvikuna að koma upp hér en það er samt að dælast inn kvika þannig að þá bara opnast á hana annars staðar.“ Haldi eldgosið sig á söndunum verði það ekki til mikilla vandræða fyrir utan gasmengunina. Það bindi sandana niður. Hins vegar sé gasmengunin eitthvað sem Íslendingar hafi ekki mikla reynslu af í seinni tíð.
„Kröflugosin voru ekki með svona miklu gasi. Þannig að menn eru kannski að kynnast því í fyrsta skipti hvernig það er þegar svona gasrík kvika kemur upp og hvaða afleiðingar það getur haft í byggð,“ segir Ármann. Í því sambandi sé mikilvægt að halda almenningu upplýstum um stöðuna og áhrif gossins og alvarleika þess. „Þess vegna er þessi viðbúnaður og þessar lokanir. Við vitum að það titrar allt hérna undir Dyngjujökli og ef það hlypi í hann á sama tíma og múgur og margmenni væri á svæðinu þá spyr maður sig hvernig lögreglan ætti að fara að því að koma fólki burt áður en flóðið kæmi niður. Það væri bara ekki hægt. Fyrirvarinn gæti verið hálftími.“
Myndbandið hér að neðan tók Ólafur Haraldsson af gosinu í Holuhrauni. Sjón er sögu ríkari.
Holuhraun Eruption (Bárðarbunga) from Olafur Haraldsson on Vimeo.