Nokkrir stórir skjálftar urðu við Bárðarbungu í gærkvöldi og mældist sá stærsti 5,4 stig og er enn viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu.
Eldgosið í Holuhrauni virðist þó vera að fjara út, að sögn Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings, en hann segir það ekki þýða að jarðhræringum sé lokið.
„Mikið kvikumagn er enn í ganginum og því má reikna með öðru gosi eftir að þetta fjarar út,“ sagði Ármann í gær en hann býst við að gosið standi í nokkra daga í viðbót. Í umfjöllun um eldgosið í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að gasmengun frá því hrellir enn landsmenn og segir Aðalsteinn Sigurðarson, bóndi á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, gróður hafa sölnað hraðar fyrir vikið.