„Athyglisvert er að fylgjast með umræðunni um skattapakka ríkisstjórnarinnar. Við höfum heyrt málflutning eins konar frjálshyggju reglustigumanna sem rætt hafa um skatta út frá fagurfræðilegu sjónarmiði og hinna sem reynt hafa að gaumgæfa hverjum skattabreytingarnar gagnast og hverjum ekki,“ sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag.
Ögmundur sagði ljóst í sínum huga hverjum skattabreytingarnar sem gera á í tengslum við fjárlagafrumvarpið gagnast og hverjum ekki. „Þær gagnast gosdrykkjaframleiðendum en ekki fátæku fólki á Íslandi, vegna þess að matur þess - og okkar allra - mun hækka í verði.“
Nokkur umræða fór fram í upphafi þingfundar undir liðnum störf þingsins um fjárlagafrumvarpið og umræðu um það. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að sérkennileg staða væri komin upp. Engu líkara sé en að þingmenn Framsóknarflokks treysti á tilstyrk stjórnarandstöðunnar til að breyta frumvarpinu, enda sé ljóst að þingflokkur Framsóknarflokks gerði við fjárlagafrumvarpið fyrirvara.
„Það liggur ekki fyrir þingmeirihluti við þetta frumvarp og þetta er orðin mjög undarleg staða,“ sagði Árni Páll sem vill að fundað verði í forsætisnefnd um það hvort frumvarpið hafi verið lagt fram með boðlegum hætti.
Þá gagnrýndi hann að þingmenn Framsóknarflokks hefðu lítið látið sjá sig í umræðunni. „Framsóknarmenn verða að koma fram og standa undir því að vera í ríkisstjórn.“