Fimm þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um skattafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu. Þetta eru þau Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir,
Ásmundur Einar Daðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson.
Lagt er til að Alþingi álykti „að fela fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, sem feli í sér heimild ráðherra til að útfæra og setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu innan tiltekinna og skilgreindra atvinnusvæða innan lands verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Í framhaldinu útfæri ráðherra og setji slíkar reglur,“ segir í tillögunni.