Velferðarsvið hyggst gera betur

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, telur áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa, sem …
Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, telur áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa, sem kynnt var í gær, gott tækifæri til að efla starfsemi sviðsins. Júlíus Sigurjónsson

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, telur áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa, sem kynnt var í gær, gott tækifæri til að efla starfsemi sviðsins. Skýrslan innihélt meðal annars fjölmargar ábendingar um hvað betur má fara innan velferðarsviðs, en flest málin sem bárust umboðsmanni borgarbúa lutu að þjónustu þess sviðs eða 161 mál af 423.

Breytingar í farvatninu

Stefán segir að strax í upphafi árs hafi breytingar verið gerðar á stjórnskipulagi velferðarsviðs og einnig hvað varðar einstök mál þar sem lagfæringa var þörf. „Eðli málsins samkvæmt þá er þetta ekki að koma inn til sviðsins fyrst í gær,“ segir Stefán um þær ábendingar skýrslunnar en umboðsmaður borgarbúa hefur unnið jafnt og þétt með sviðinu fram til þessa. Mikill vilji er innan velferðarsviðs að bæta starfsemina og segir Stefán mörg sóknarfæri fólgin í skýrslunni og stefnir á að nýta þau vel. „Frekari breytingar eru á næsta leiti og tökum við þann tíma sem þarf til að standa vel að þeim,“ segir Stefán um framhaldið.

Styður áframhaldandi vinnu umboðsmanns

Stefán telur mikinn feng í embætti umboðsmanns borgarbúa sem rýnir til gagns stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar með það að tilgangi að bæta það sem miður fer. Hafi það verið til marks um metnað allra borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar þegar embættið var sett á laggirnar og hvetur hann jafnframt önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama. „Vinur er sá sem til vamms segir, þannig lítum við á þetta,“ segir Stefán að lokum.

Frétt mbl.is: Málum rignir yfir umboðsmann

Umboðsmaður borgarbúa kynnti í gær áfangaskýrslu þar sem fjölmargar athugasemdir …
Umboðsmaður borgarbúa kynnti í gær áfangaskýrslu þar sem fjölmargar athugasemdir voru gerðar við starfsemi sviða borgarinnar. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert