Heildsali sem kaupir reglulega dýr tæki frá útlöndum var nærri búinn að tapa 5-10 milljónum króna í hendur tölvuþrjóta sem blekktu hann.
Það sem varð honum til happs voru gjaldeyrishöft sem hömluðu því að hann gæti sent pening á milli landa án þess að fara í gegnum ferli hjá Seðlabanka Íslands.
Ólafur R. Rafnsson, ráðgjafi í upplýsingatækni og upplýsingaöryggismálum hjá Capacent, aðstoðaði manninn eftir að upp komst um málið. Í umfjöllun um mál þetta í Viðskiptamogganum í dag segir hann að tölvuþrjótur hafi komist inn í tölvupóstsamskipti mannsins við birginn sinn í Bretlandi. Bjó tölvuþrjóturinn til annað tölvupóstfang sem líktist mjög því sem birgirinn var með og bað heildsalann um að millifæra á annan reikning. Sú millifærsla var langt komin, en tafðist vegna þess hún þurfti að fara í gegnum ákveðið ferli hjá SÍ til þess að fá samþykki fyrir nýjum gjaldeyrisreikningi.