Starfsmönnum Fiskistofu sem náð hafa sextíu ára aldri fyrir árslok 2015 verður gefin kostur á að ljúka starfsævi sinni fyrir stofnunina á höfuðborgarsvæðinu. Þeir þurfa því ekki að flytja til Akureyrar samhliða flutningi höfuðstöðva Fiskistofu á næsta ári.
Jafnframt verður starfsmönnum sem unnið hafa í fimmtán ár eða lengur á árinu 2015 veittur frestur til 1. júlí 2016 til að taka ákvörðun um það hvort þeir flytji til Akureyrar og taki starf þar.
Tölvusvið Fiskistofu, sem þjónar raunar einnig Hafrannsóknarstofnun, verður þá ekki flutt norður en til greina kemur að það þjóni einnig Matvælastofnun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, kynnti þessar aðgerðir á fundi ríkisstjórnarinnar 2. september síðastliðinn. Á fundinum kom fram að stefnt sé að því að höfuðstöðvar Fiskistofu verði fluttar til Akureyrar fyrir 1. júlí 2015 og að flutningum ljúki eigi síðar en 1. janúar 201.
Allir nýir starfsmenn verða ráðnir með starfsstöð á Akureyri og þeir sem flytja frá höfuðborgarsvæðinu og norður eiga kost á flutningsstyrk sem nemur þremur milljónum króna. Auk þess verður greiddur kostnaður við flutning búslóðar.
Styrkurinn er skattskyldur og þurfa þeir starfsmenn sem þiggja hann að skuldbinda sig til að vinna hjá Fiskistofu á Akureyri í tvö ár og ef starfsmaður hættir fyrr endurgreiðist styrkurinn í hlutfalli við þann tíma sem starfsmaðurinn gegndi starfinu.
Aðgerðirnar sem Sigurður Ingi segist vera tilbúinn að beita sér fyrir voru í kjölfarið kynntar starfsmönnum Fiskistofu, meðal annars bréfleiðis þann 10. september síðastliðinn.