Vörugjöldum komið fyrir kattarnef

SA benda á að fyrirtæki séu nú þegar tekin að …
SA benda á að fyrirtæki séu nú þegar tekin að lækka útsöluverð á raftækjum miðað við áform sem birt hafa verið í fjárlagafrumvarpinu og lækkun vörugjalda. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök atvinnulífsins segja að það sé þjóðþrifaverk hjá ríkisstjórn Íslands að koma almennum vörugjöldum fyrir kattarnef. Samtökin segja að þau hafi verið skaðleg neytendum og fyrirtækjum í allt of langan tíma.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA. 

Samtökin segja ennfremur, að vörugjöld hafi verið lögð á ýmsar innfluttar nytjavörur og framleiðslu innanlands allt frá árinu 1971 þegar Ísland gekk í EFTA. SA segir vörugjaldakerfið flókið, órökrétt og ósanngjarnt. Það feli auk þess í sér margvíslega mismunun og hækki verðlag.

„Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að bæta kerfið en án árangurs. Vörugjöld af matvælum voru t.d. afnumin árið 2007 í viðleitni til að lækka matarverð en árið 2009 voru þau sett á að nýju í óbreyttri mynd en upphæðir tvöfaldaðar enda trú margra að aukin gjöld bæti lífskjör á Íslandi.

Í fjárlagafrumvarpinu 2015 er gert ráð fyrir að almenn vörugjöld falli niður 1. janúar 2015 og mun það skila íslenskum heimilum rúmlega sex og hálfs milljarða króna ávinningi, þar af eru þrír milljarðar vegna niðurfellingar vörugjalda á matvæli. Raunar eru fyrirtæki nú þegar tekin að lækka útsöluverð á raftækjum miðað við áform sem birt hafa verið í fjárlagafrumvarpinu og lækkun vörugjalda því þegar tekin að skila sér til neytenda. Í dag bera sjónvörp 25% vörugjöld, þvottavélar og bílavarahlutir 20%, salerni, salernispappír og blöndunartæki 15%. Tölvuskjáir sem streyma sjónvarpsútsendingum bera engin vörugjöld – nema þeir hafi HDMI tengi! Bíldekk bera vörugjald (20 kr. á kíló). Þá er byggingarefni hlaðið vörugjöldum nema  bárujárn og spónaplötur enda vinsælt byggingarefni á Íslandi. Margar fleiri vörur mætti nefna,“ segja samtökin.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert