„Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er ekki viðunandi. Fólk er undir fátæktarmörkum þar,“ segir Hanna Björnsdóttir, félagsráðgjafi og skýrsluhöfundur nýrrar skýrslu um viðunandi framfærslu hér á landi, sem kynnt var á ráðstefnu EAPN (European Anti Poverty Network) fyrr í dag. Á ráðstefnunni var fjallað um það hvað fólk þarf í hverju landi fyrir sig til að geta lifað mannsæmandi lífi, þ.e. hvað er viðunandi framfærsla.
EAPN er evrópskt tengslanet frjálsra félagasamtaka sem hafa það að markmiði að þrýsta á og kynna stjórnvöldum og stofnunum leiðir til að þróa og beita árangursríkum aðferðum gegn fátækt og félagslegri einangrun. Á síðasta ári hófst vinna að svokölluðu EMIN verkefni, en það er tveggja ára verkefni tengslanetsins þar sem leitast er við að finna út hvað þarf í hverju Evrópuríki fyrir sig til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. EMINverkefnið er unnið með stuðningi frá framkvæmdastjórn ESB.
„Það er ýmislegt sem er öðruvísi hér. Við viljum bera okkur saman við Norðurlöndin en erum alltaf svolítið eftir á virðist vera,“ segir Hanna, en hún skoðaði heimildir, lög og reglugerðir og fann út hver staða fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga hér á landi væri. „Ég tók líka viðtöl við aðila frá ríki og bæ og fólk sem hefur upplifað fátækt og setti þetta allt saman í eina skýrslu. Verið er að gera sambærilegar skýrslur í öllum Evrópulöndum.“
Eftir að hafa farið yfir gögnin komst Hanna að því að reglurnar og heimildirnar eru mjög mismunandi um landið. Þá er ekkert sveitarfélaganna í landinu með sömu upphæð í fjárhagsaðstoð. „Það er enginn jöfnuður. Upphæðin er hæst í Reykjavík þar sem hún er rúmar 169 þúsund krónur, en lægst í Reykjanesbæ þar sem hún er ekki nema 129 þúsund krónur. Það er ekki sama hvar þú býrð,“ segir hún.
„Vandamálið hér á Íslandi er að sveitafélögin hafa sterkan sjálfsákvörðunarrétt. Þeim var skylt að gera reglur um fjárhagsaðstoð og fengu sendar leiðbeiningarreglur frá ráðuneytinu til þess. Þessar reglur eru orðnar úreltar í dag,“ segir Hanna. „Við höfum mannréttindalög og ýmislegt annað sem verið er að brjóta á þessu fólki. Það þurfa allir að geta notið sín og lifað sómasamlegu lífi með virðingu.“
Hanna segir mikilvægt að nýta þann glugga sem er opinn núna og koma þessum málum í farveg. „Það var talað um það að nú væru opnir gluggar vegna þess að það er verið að endurskoða almannatryggingalöggjöfina og það er verið að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitafélaganna til dæmis,“ segir hún. „Við verðum að nýta okkur það.“
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Per K. Larsen, formaður EAPN í Danmörku. „Á ráðstefnunni talaði ég um tillögur frá EMIN um það að einhvers konar staðlar ættu að vera í Evrópu fyrir lágmarks framfærslu, sem eru á hóflegu stigi en gera fólki kleift að lifa lífinu með reisn og vera hluti af samfélaginu,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Við sjáum nefnilega að það sem er að gerast í öllum Evrópulöndunum er að á meðan frjálsi markaðurinn er að þróast í jákvæða átt þá er samdráttur í félagslegum stöðlum og lífskjörum. Þess vegna mælum við með því að lágmarks framfærslan sé endurskoðuð í hverju landi fyrir sig og hún geri það að verkum að fólk þurfi ekki að lifa í fátækt.“