Hjarta stjórnvalda slær ekki með tekjulágum

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Stéttarfélagið Framsýn gerir alvarlegar athugasemdir við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Framsýn segir að réttindi atvinnulausra séu skert, verið sé að auka álögu á lágtekjufólk og það sé greinilegt að stjórnvöld hafi ekki áhuga á að vinna með verkalýðshreyfingunni.

Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt á fundi stjórnar og og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í gær.

Ályktunin er svohljóðandi:

„Framsýn stéttarfélag gerir alvarlegar athugasemdir við framkomið fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Í frumvarpinu er ráðist að ákveðnum grunngildum sem miða að því að fólk geti séð fyrir sér og sínum með reisn.

Hvað ríkisstjórninni gengur til með að skerða réttindi atvinnulausra er ekki vitað. Þá er með hækkun á matarskatti verið að auka enn frekar álögur á lágtekjufólk.

Því miður fyrir láglaunafólk í landinu slær hjarta ríkisstjórnarinnar ekki með þeim tekjulægri í þjóðfélaginu. Fjárlagafrumvarpið staðfestir það sem og þær skattkerfisbreytingarnar sem gerðar voru síðasta vetur þegar þeir tekjulægstu voru skildir eftir.

Greinilegt er að ríkisstjórnin hefur ekki áhuga fyrir því að vinna með verkalýðshreyfingunni í því að skapa þjóðfélag sem byggir á jöfnuði. Verkalýðshreyfingunni ber skylda til og mun svara þessum skilaboðum með skýrum hætti í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur og í samskiptum við stjórnvöld. Ábyrgðin liggur ekki bara hjá verkalýðshreyfingunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert