Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það geti varla verið markmið ASÍ að kollvarpa þeim mikla árangri sem hafi náðst af óánægju með samstarf við stjórnvöld og forgangsröðun fjárlaga.
Þetta kemur fram í leiðara nýs fréttabréfs SA, sem út kom í gær. „Við erum að benda á það, að þó að það séu ákveðnar brotalamir í samskiptum við stjórnvöld sé mikilvægast að menn horfi á meginmarkmiðið sem er það að viðhalda stöðugleika, og að við vinnum saman að gerð kjarasamninga á þeim grunni,“ segir Þorsteinn um tilefni leiðarans, en miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun í fyrradag, þar sem samskipti við stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd.
„Þó að vissulega megi taka undir margt í þeirri gagnrýni, bendir ekkert til annars en að það sé fullur vilji stjórnvalda til þess að bæta úr því og laga þá hnökra, og að því þurfum við þá að vinna.“