„Norðurlandið á í mér hvert bein. Sú tilfinning að aka niður brekkurnar af Holtvörðuheiði og horfa út Hrútafjörðinn er alltaf góð. Sumir bílstjórar veit ég að eru með útvarpið á sínum ferðalögum. Sjálfum finnst mér þó skemmtilegra að virða fyrir mér landið og ótal svipbrigði þess. Það ber alltaf eitthvað nýtt fyrir augu,“ segir Emil Birnir Hauksson, bílstjóri hjá Vörumiðlun á Sauðárkróki.
Starfsemi Kaupfélags Skagfirðinga er umfangsmikil og skiptist í margar kvíslar. Ein þeirra er Vörumiðlun ehf., en undir merkjum þess fyrirtækis er gerður út stór floti flutningabíla sem eru í ferðum um landið þvert og endilagt út frá heimahöfninni sem er á Króknum. Og bílstjórarnir eru konungar þjóðveganna, King of the road, eins í frægum slagara með söngvaranum Roger Miller. Og svo má líka nefna bækur Skagfirðingsins Indriða G. Þorsteinssonar þar sem vörubílstjórarnir eru eðaltöffarar.
„Bílarnir hjá Vörumiðlun skipta tugum, en stóru trukkarnir sem þetta fyrirtæki er með í daglegum ferðum milli landshluta eru sex til átta. Það hefur aðeins létt á þeim eftir að strandsiglingarnar komu til á síðasta ári. Nú eru gámaflutningarnir mikið komnir í skip en mikið fer þó með bílum áfram,“ segir Emil sem var nú í byrjun vikunnar í Reykjavík. Kom kvöldið áður með fullan bíl af steinull frá verksmiðjunni nyrðra. Fór aftur norður síðdegis með iðnaðarvélar og ýmsan þungavarning.
„Fiskflutningarnir eru stór póstur hjá okkur og einnig þarf að koma matvælum sem framleidd eru á Króknum, til dæmis kjöti og mjólkurafurðum, hingað suður. Þetta er í raun endalaus hringrás,“ segir Emil sem hóf störf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga árið 1990. Var fyrstu árin meðal annars í gripaflutningum fyrir sláturhús. Tók seinna nokkrar haustvertíðir, sótti þá sláturfé sunnan úr Borgarfirði og svo hringinn um landið réttsælis alveg austur á firði.
„Í þeim ferðum heillaðist ég alveg af haustinu; hvernig landið fær nýjan svip á fáeinum vikum. Græni liturinn víkur fyrir gulum, rauðum og brúnum. Þetta er mikil sinfónía,“ segir Emil sem munstraðist á langflutningabíl fyrir um tuttugu árum. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafi vegirnir breyst mikið til hins betra. Þeir verið breikkaðir en einna mest muni um að einbreiðu brýrnar séu farnar. Hins vegar séu hringtorgin sem víða hafi verið sett upp á síðustu árum sér þyrnir í augum. Séu þröng og skapi slysahættu, til dæmis þegar bílum af hliðarvegum er ekið inn á aðalbrautina. Þá rífi akstur um hringtorgin upp kanta bíldekkjanna og slíti þeim.
„Þó að Hvalfjarðargöngin væru mikil samgöngubót fannst mér samt svolítill missir að því að hætta ferðum fyrir fjörð. Sú leið er einstaklega falleg og að fara um hlykkjóttan veginn var svolítið eins og rússíbanaferð í tívolí.“
Ferðir Emils landshluta á milli hafa ekki allar verið áfallalausar. Eitt sinn missti hann bíl sinn út af veginum á Kjalarnesi í hvassviðri og smáatvikin eru mörg. „Sumt situr auðvitað í manni,“ segir Emil. Vísar þar til slyss sem varð 10. janúar 2002 þegar ökumaður missti stjórn á jeppa sínum í mikilli hálku efst í Norðurárdal í Borgarfirði. Sá lenti framan á bílnum sem Emil ók og lést samstundis.
„Þetta var mikið áfall sem mér tókst þó að vinna mig út úr að mestu. Stuðningur þeirra sem standa mér næst var mikilsverð hjálp. Einnig sú niðurstaða rannsóknar að orsök slyssins væri ekki mín mistök. Þetta var bara slys og þau geta alltaf hent.“
Emil er Skagfirðingur í húð og hár og hefur búið í héraðinu nánast alla tíð. Er einsetumaður, eins og sakir standa, faðir þriggja barna og barnabörnin eru jafn mörg. Segir vinnuna vera sitt hálfa líf, en sér þyki þó alltaf gaman að vera með vinum og vandamönnum og dútl í sælureit fjölskyldunnar í Viðvíkursveitinni gefi sér mikið.
„Þá strax fór hann að halda saman hve mikið hann æki dag hvern og hefur haldið því síðan. „Auðvitað er þetta ekki hárnákvæmt, en ég skýt á að þetta séu 3,6 milljónir kílómetra. Margir hafa lagt lengri spotta að baki á sinni siglingu, en þetta er dágott samt,“ útskýrir Emil. Hann segir enga reglu á því hvert leiðir sínar liggi hvern dag. Í rauninni skýrist það aldrei fyrr en komið er til vinnu að morgni. Algengt sé þó að Reykjavíkurferðir vikunnar séu þrjár til fjórar.
Sú var tíðin að flutningabílstjórar utan af landi sinntu allskonar snatti og snúningum syðra fyrir sveitunga sína. Emil segir þetta að mestu liðið undir lok. Pakkar og pinklar fari með annarri frakt, en auðvitað verði ekki komist hjá viðvikum fyrir fólk þegar svo beri undir.
„Stundum hringir fólk og biður mig kannski fyrir bíllykla, fatapoka eða eitthvað slíkt. Það er nú bara sjálfsögð greiðasemi að redda slíku. Í vor gleymdi Skagfirðingur sem var að fara til útlanda vegbréfinu sínu fyrir norðan. Fjölskyldan hans bað mig fyrir þessa mikilvægu sendingu. Ég setti vegabréfið í brjóstvasann og málinu var reddað. Ég hef annars verið beðinn um allt mögulegt, þú getur skrifað gervitennur og gleraugu. Í þessum sendingum má kannski segja að líf fólksins í landinu og þetta daglega bras endurspeglist mjög skemmtilega.“