Höfuðborgarbúar hafa margir hverjir orðið varir við mistur sem legið hefur yfir borginni í dag. Um er að ræða mengun frá gosstöðvunum í Holuhrauni en hún hefur borist víða um landið í dag. Fólk víða um land hefur tilkynnt um óþægindi vegna mengunarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands hefur mengunin dreifst mun betur í dag en fyrri daga. Íbúar víða um land hafi orðið varir við mistur og er hluti þess líklega mengaður. Hægviðri er á landinu og hefur mengunin náð að síga niður af hálendingu í flesta landshluta.
Ekki hafa borist tölur um mikla mengum frá suður-, vestur- og norðvesturhluta landsins í dag. Vinnuflokkur á Sprengisandi þurfti frá að hverfa um tíma vegna mengunarinnar og þá var einnig lélegt skyggni á Höfn í Hornafirði.
Hægt er að tilkynna um til Veðurstofu Íslands, finni fólk fyrir brennisteinsfnyk vegna eldsumbrotanna.
Hér má sjá kort þar sem spáð er fyrir um gasdreifingu.
Í nótt gengur í suðaustanátt með hvassvirði og þá má gera ráð fyrir að mengunin hverfi víða á haf út.
Upplýsingar á vef Veðurstofu Íslands:
Í dag er útlit fyrir hæga vestan- og norðvestanátt. Gosmengunar er einkum að vænta austan og suðaustan við eldstöðvarnar sem og á Miðhálendinu. Ekki er hægt að útiloka mengun á stærra svæði.
Við þær aðstæður sem myndast við hægan vind getur gas safnast fyrir í lægðum í landslagi og náð þar háum styrk. Þetta á einkum við um nágrenni eldstöðvarinnar.
Á morgun (sunnudag) er útlit fyrir vaxandi sunnanátt og berst mengunin þá til norðurs og gæti hennar orðið vart á svæði sem afmarkast af Bárðardal í vestri að Öxarfirði í austri.