„Auðvitað eiga þau endurkröfurétt á skuldarann ef til þess kemur að þau þurfi að greiða lánið. Það er þó ekki nema skuldari námslánsins lendi í vanskilum, að til kasta ábyrgðarinnar kemur,“ segir Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN.
Lán frá LÍN, sem féll á systkini þar sem faðir þeirra, sem lést fyrir 28 árum, hafði gerst ábyrgðarmaður námsláns stjúpsonar síns á sínum tíma, hefur vakið mikla athygli síðustu vikuna en Hrafnhildur segir að ekki hafi borið mikið á sambærilegum málum að undanförnu.
Stjúpsonurinn tók námslán, sem faðir systkinanna gerðist ábyrgðarmaður fyrir, en eignir stjúpsonarins voru teknar til gjaldþrotaskipta í febrúar á þessu ári. Hann er því kominn í vanskil og þurfa systkinin að taka við greiðslu af láninu.
„Við höfum ekki gert neina sérstaka könnun á því hversu mörg svona tilvik hafa komið upp. Ég geri heldur ekki sérstaklega ráð fyrir því að þetta einstaka mál verði rætt eitthvað frekar innan stjórnar LÍN. Svona eru bara lögin. Þetta er ekkert einstakt þannig þó að þetta hafi farið með þessum hætti í fjölmiðla,“ segir hún.
Í bréfinu, sem systkinin fengu sent frá LÍN, kemur meðal annars fram að þar sem skiptum á búi ábyrgðarmannsins, föður þeirra, hafi lokið með einkaskiptum, þá hafi erfingjarnir tekið á hendur ábyrgð á skuldbindingum búsins, sbr. 97. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl.
„Ef dánarbúi er skipt í opinberum skiptum þá eiga erfingjarnir að kanna skuldastöðu þess sem þeir eru að erfa og athuga þar af leiðandi hvaða skuldir eða ábyrgðir liggja á búinu,“ bætir hún við.
Hrafnhildur segir þó að alltaf sé unnið að því að bæta kerfið og að lagt hafi verið til frumvarp fyrir tveimur árum. Það sé því á stefnuskrá að breyta lögunum.
„Það er eitt af markmiðum ráðherra að endurskoða lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna en það segir ekki með hvaða hætti það verður gert. Það er samt náttúrlega búið að leggja niður ábyrgðarmenn, það var gert árið 2009. Það mun því ekki koma til sambærilegra mála í framtíðinni hjá þeim sem eru að taka lán um þessar mundir. Það er hinsvegar alltaf dæmt eftir þeim lögum og reglum sem voru í gildi þegar lánin voru tekin,“ segir hún.
„Það verður ef til vill farið í þá vinnu að senda bréf til allra erfingja dánarbúa varðandi ábyrgð eða skuldir. Það hvílir þó auðvitað þessi skylda á þeim sem fá að skipta búi í einkaskiptum að kanna stöðu búsins áður en fengin er heimild til að skipta hjá sýslumanni,“ segir Hrafnhildur að lokum.
Þurfa skyndilega að greiða lánið
Á eftirfarandi mynd má sjá ljósmynd af bréfi LÍN sem barst öðrum erfingjanum.