Hugleiðslan bjargaði heilsunni

Linda Rós glímdi við kvíða og vanlíðan frá barnæsku.
Linda Rós glímdi við kvíða og vanlíðan frá barnæsku.

Linda Rós Helgadóttir barðist við kvíða í meira en 20 ár en eftir að hafa kynnst hugleiðslu og þolæfingum varð lífshamingjan loksins ofan á í baráttunni. 

„Frá barnæsku glímdi ég við kvíðatilfinningu og vanlíðan sem henni fylgir,“ segir Linda Rós Helgadóttir, sem ljómaði af lífsgleði þegar hún settist niður til að ræða um baráttu sína við kvíðann og ekki var að sjá á henni að kvíðapúkinn hefði nokkurn tímann plagað hana. Sjálf segir hún ásýnd ekki segja alla söguna og mikill og viðvarandi kvíði sé ekki eins sýnilegur, eða samþykktur, sjúkdómur og margir aðrir.

„Það má ekki gleyma því að kvíði og þunglyndi hefur orðið banamein alltof margra. Áhyggjur og kvíði heimsækja flest okkur einhvern tímann á lífsleiðinni og það er eðlilegt að upplifa áhyggjur og kvíða af og til enda eðlilegur hluti af lífi hvers manns. Hræðsla, óróleiki og spenna eru t.d. tilfinningar sem kunna að vera hjálplegar því þær bæði vara okkur við og gera okkur kleift að bregðast við ógn og hættum,“ segir Linda en bendir svo á að hjá sumum nái þessar sömu tilfinningar tökum á sálarlífinu og verði jafnvel óbærilegur hluti af lífi fólks.

„Hjá mér olli kvíðinn mikilli vanlíðan, hann var með mér alla daga og frá ellefu ára aldri langaði mig meira til að deyja en lifa.“

Læknaheimsóknir og lyf hjálpuðu ekki

Nærvera Lindu er smitandi, hún er lífsglöð, brosmild og ljómar af gleði og krafti. Það er ótrúlegt að fyrir aðeins örfáum árum hafi hún frekar viljað deyja en lifa.

„Ég var búin að leita til fjölda lækna og vera á ýmsum lyfjum en það dugði skammt. Kvíðinn fór ekkert og vanlíðanin sem fylgdi honum ekki heldur.“ Lækning Lindu reyndist því ekki vera í lyfjaglösum eða læknaheimsóknum. Eitthvað annað og meira þurfti að koma til.

„Í mínu tilviki var það þolþjálfun, hugleiðsla og hugræn atferlismeðferð sem kom mér á rétta braut,“ segir Linda en henni var bent á að þolæfingar, þar sem púlsinum er náð vel upp, gætu hjálpað í baráttunni við kvíða og þunglyndi.

„Ég er með hálfgerða fullkomnunaráráttu og mér finnst ég þurfa að gera allt mjög vel. Fór því í ræktina 36 sinnum á einum mánuði á 26 þolæfingar og 10 hot yoga-tíma og náði púlsinum vel upp á þolæfingunum. Ég gleymi aldrei tilfinningunni þegar ég kom heim af síðustu æfingunni og lá uppi í sófa; í fyrsta sinn í 20 ár langaði mig meira að lifa en deyja,“ segir Linda en endurkynnin við lífslöngunina leiddu hana næst að hugleiðslunni.

Hugleiðslan lykillinn að því að róa hugann

Allir sem kynnst hafa hugleiðslu þekkja áhrifamátt hennar og ferðalagið inn á við. Það getur reynst mörgum erfitt í byrjun en þegar ró kemst á hugann verður ferðalagið vel þess virði. „Hugleiðslan kenndi mér að átta mig betur á hugsununum í kollinum á mér. Ég get lent í vítahring hugsana þar sem minnsta gagnrýni frá sjálfri mér eða öðrum vindur upp á sig. Með hugleiðslunni tekst mér að takast á við þessar hugsanir og róa hugann.“

Til að byrja með hugleiddi Linda daglega en segist í dag hafa dregið örlítið úr því en hugleiði þó reglulega. „Ég gef mér alltaf tíma af og til í hugleiðsluna þótt ég hugleiði ekki daglega lengur. Hins vegar eiga allir að geta fundið nokkrar mínútur á dag til að hugleiða og það er sérstaklega mikilvægt að finna þessar mínútur þegar kvíði, stress og vanlíðan hellast yfir mann. Þú þarft ekki að vera búddamúnkur til að hugleiða, sjálf leggst ég bara upp í rúm og tæmi hugann.“

Í dag segist Linda gefa lífinu meiri gaum, hún skynjar umhverfi sitt betur og nýtur augnabliksins. „Hversu oft förum við út að ganga og tökum ekki eftir umhverfi okkar, gróðrinum eða fuglalífinu í kringum okkur, vegna þess að hugurinn er einhvers staðar annars staðar? Það getur verið góð hugleiðsla að fara út að ganga og upplifa umhverfi sitt og augnablikið sem við lifum í.“ Linda segist hafa lifað í litlum þægindahring og kvíðinn hafi stjórnað henni en í dag er lífið allt öðruvísi.

„Ég var hrædd við allt nýtt og í staðinn fyrir að gera það sem mig langði að gera lét ég kvíðann stjórna mér og var bara heima, kunni á tímabili sjónvarpsdagskrána utan að. En í dag er þægindahringurinn orðinn miklu stærri og tímanum sem ég eyddi fyrir framan sjónvarpið er nú eytt í að lifa lífinu og ástunda andlega, félagslega og líkamlega rækt.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert