Ragnar Bjarnason, Raggi Bjarna, fagnaði 80 ára afmæli sínu með tónleikum í Eldborgarsal Hörpu í gær. Ragnar heldur að hann hafi sungið sitt vinsælasta lag, Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig, rúmlega þrjú þúsund sinnum. Það verði þó aldrei þreytandi.
Hann sat fyrir svörum í Sunnudagsmogganum.
Má ekki segja að þú hafir fengið tónlistina í vöggugjöf enda foreldrar þínir kunnir tónlistarmenn?
Jú, pabbi, Bjarni Böðvarsson, var eitt sinn aðalséníið í þessum bransa. Hann ferðaðist með 14 manna hljómsveit út á land og er einn af stofnendum FÍH 1932. Mamma, Lára Magnúsdóttir, söng fyrst með pabba en hætti því svo án þess að hætta að syngja því hún söng í kirkjukór í 40 ár.
Hvernig leggjast afmælistónleikarnir í þig?
Rosalega vel. Æfingar hafa gengið vel. Ég hef ekki áhyggjur af neinu nema ef ég gleymi einhverju, þá læt ég bara fólkið vita af því að allt sé komið í klessu.
Hvað heldur þú að þú sért búinn að syngja Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig oft á ferlinum?
Ég get svarið það: Fyrsta árið sem lagið kom út, 1960, þá söng ég það þrisvar til fimm sinnum á hverju einasta balli, aldrei minna. Síðan er ég búinn að vera að syngja þetta lag. Flestallir krakkar kunna þetta, það reyndar kunna allir þetta lag sem er 54 ára gamalt.
Eigum við að skjóta á þrjú þúsund sinnum?
Þú ert einn af fáum mönnum sem hafa sungið inn á allar útgáfutegundir platna. Er munur á þessum formum?
Ég söng inn á svokallaðar lakkplötur einu sinni og ég man ekki hvernig það var gert en það var málningarkústur sem var settur yfir plötuna. Þú getur rétt ímyndað þér muninn á því og hvernig það er að syngja í dag.
Hvað er svo framundan?
Ég veit það ekki. Það var alltaf verið að spyrja mig hvenær ég myndi hætta, það er enginn að spyrja mig að því lengur þannig að ég held eitthvað áfram. Ég er alltaf eitthvað að bauka.
Ég og Þorgeir Ástvalds erum búnir að vera í tíu ár saman í skemmtanabransanum. Hann á píanóinu. Skemmtilegur maður, hann Þorgeir.