„Þetta er afar óskynsamlegt“

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna ríkislögreglustjóra. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Menn eru að tefla í mikla tvísýnu með því að fara inn á svæðið. Við höfum séð það í þessu ferli að við vitum í raun ekkert og það hefur enga forboða ef gos hefst annars staðar á svæðinu. Viðvörunartíminn á slíku er enginn,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavörnum, en sex nýir utanvegarslóðar eftir ferðafólk fundust við gosstöðvarnar í Holuhrauni í gær.

Víðir segir það geta reynst lífshættulegt að virða ekki lokanir við gosstöðvarnar. „Fólk virðist skeyta engu um þær hættur sem þessu fylgir og virða ekki þær viðvaranir sem við höfum gefið út,“ segir hann. „Ef það kemur til þess að eitthvað gerist þarna þá mun fólk setja sjálft sig og þá viðbragðsaðila sem þurfa hugsanlega að koma þeim til bjargar í mikla hættu.“

Gríðarlega hættulegt svæði

En hverjar eru hætturnar sem fólk getur staðið frammi fyrir, fari það inn á svæðið? „Það eru skyndileg flóð og í myrkri yrði fólk ekki vart við þau fyrr en það lenti í vatninu. Fólk ætti ekki neina möguleika á því að komast undan. Svo er það gasið og annað sem er á gosstöðvunum sem getur verið hættulegt. Í þriðja lagi er það svo öskufall sem myndi fylgja ef gos hæfist undir jöklinum með engu skyggni miðað við okkar reynslu af eldgosum undan jökli,“ segir Víðir. „Skyggnið væri svo slæmt að fólk sæi ekki lófana á höndum sínum ef það héldi þeim úti.“

Að sögn Víðis væri það nánast útilokað að bregðast við og bjarga fólki ef eitthvað kæmi upp á. „Það væri umfram það sem við reiknum með í okkar viðbragðsáætlun og getur verið nánast útilokað að bregðast við því.“

Vilja að fólk taki mark á lokunum

Að sögn Víðis hafa verið höfð afskipti af nokkrum aðilum sem hafa farið inn á svæðið, og eiga þeir von á háum sektum. „Sektirnar eru samt aukaatriði því við viljum aðallega að fólk geri sér grein fyrir því hvað þetta er hættulegt,“ segir hann. „Við settum upp lokanirnar vegna þessa. Þær eru ekki til neins annars en að skerpa á því hversu hættulegt það er að fara þangað og við vonum að fólk taki mark á því.“

Víðir segir lykilatriðið það að lokanirnar séu ákveðnar í samvinnu við okkar færustu vísindamenn. „Þeir hafa engra hagsmuna að gæta í málinu annarra en að hjálpa okkur að tryggja öryggi almennings. Þeir sem fara þarna inn fyrir telja sig greinilega búa yfir betri þekkingu til að meta hættuna en þeir og það er frekar vafasamt tel ég,“ segir hann. „Skynsamt fólk fer ekki þarna. Þetta er afar óskynsamlegt sem fólk er að gera.“

„Eins og menn haldi að þeir séu ódauðlegir“

Að sögn Víðis hafa þeir sem farið hafa inn á svæðið gert það af yfirlögðu ráði, til að skoða gosið og taka myndir. „Menn eru ekkert að fara þarna óvart. Allir slóðar inni á svæðinu eru mjög vel merktir og enginn af þeim sem við höfum haft afskipti af hefur haft möguleika á öðru en að vita nákvæmlega hvað hann var að gera. Í umræðunni og öllu saman kemur alltaf fram að þetta sé lokað. Menn eiga enga afsökun,“ segir hann. „Það er eins og menn haldi að þeir séu ódauðlegir. Ég veit ekki hvað það er sem veldur því að menn telji að þeir geti gert þetta án þess að setja sig og þá sem eru með þeim í för í hættu.“

Eins og áður sagði getur fólk sem fer inn á svæðið átt von á mjög háum sektum. Þar sem bannað er að fara inn á svæðið er sektin fyrir hvern einstakling. „Þetta er ekki brot á umferðarlögum svo það er ekki bara bílstjórinn sem fær sektina, það eru bara allir sem eru í ferðinni. Hver einasti aðili sem fer inn á svæðið fær sekt,“ segir Víðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert