„Þetta er afar óskynsamlegt“

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna ríkislögreglustjóra. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Menn eru að tefla í mikla tví­sýnu með því að fara inn á svæðið. Við höf­um séð það í þessu ferli að við vit­um í raun ekk­ert og það hef­ur enga for­boða ef gos hefst ann­ars staðar á svæðinu. Viðvör­un­ar­tím­inn á slíku er eng­inn,“ seg­ir Víðir Reyn­is­son, deild­ar­stjóri hjá Al­manna­vörn­um, en sex nýir ut­an­veg­ar­slóðar eft­ir ferðafólk fund­ust við gosstöðvarn­ar í Holu­hrauni í gær.

Víðir seg­ir það geta reynst lífs­hættu­legt að virða ekki lok­an­ir við gosstöðvarn­ar. „Fólk virðist skeyta engu um þær hætt­ur sem þessu fylg­ir og virða ekki þær viðvar­an­ir sem við höf­um gefið út,“ seg­ir hann. „Ef það kem­ur til þess að eitt­hvað ger­ist þarna þá mun fólk setja sjálft sig og þá viðbragðsaðila sem þurfa hugs­an­lega að koma þeim til bjarg­ar í mikla hættu.“

Gríðarlega hættu­legt svæði

En hverj­ar eru hætt­urn­ar sem fólk get­ur staðið frammi fyr­ir, fari það inn á svæðið? „Það eru skyndi­leg flóð og í myrkri yrði fólk ekki vart við þau fyrr en það lenti í vatn­inu. Fólk ætti ekki neina mögu­leika á því að kom­ast und­an. Svo er það gasið og annað sem er á gosstöðvun­um sem get­ur verið hættu­legt. Í þriðja lagi er það svo ösku­fall sem myndi fylgja ef gos hæf­ist und­ir jökl­in­um með engu skyggni miðað við okk­ar reynslu af eld­gos­um und­an jökli,“ seg­ir Víðir. „Skyggnið væri svo slæmt að fólk sæi ekki lóf­ana á hönd­um sín­um ef það héldi þeim úti.“

Að sögn Víðis væri það nán­ast úti­lokað að bregðast við og bjarga fólki ef eitt­hvað kæmi upp á. „Það væri um­fram það sem við reikn­um með í okk­ar viðbragðsáætl­un og get­ur verið nán­ast úti­lokað að bregðast við því.“

Vilja að fólk taki mark á lok­un­um

Að sögn Víðis hafa verið höfð af­skipti af nokkr­um aðilum sem hafa farið inn á svæðið, og eiga þeir von á háum sekt­um. „Sekt­irn­ar eru samt auka­atriði því við vilj­um aðallega að fólk geri sér grein fyr­ir því hvað þetta er hættu­legt,“ seg­ir hann. „Við sett­um upp lok­an­irn­ar vegna þessa. Þær eru ekki til neins ann­ars en að skerpa á því hversu hættu­legt það er að fara þangað og við von­um að fólk taki mark á því.“

Víðir seg­ir lyk­il­atriðið það að lok­an­irn­ar séu ákveðnar í sam­vinnu við okk­ar fær­ustu vís­inda­menn. „Þeir hafa engra hags­muna að gæta í mál­inu annarra en að hjálpa okk­ur að tryggja ör­yggi al­menn­ings. Þeir sem fara þarna inn fyr­ir telja sig greini­lega búa yfir betri þekk­ingu til að meta hætt­una en þeir og það er frek­ar vafa­samt tel ég,“ seg­ir hann. „Skyn­samt fólk fer ekki þarna. Þetta er afar óskyn­sam­legt sem fólk er að gera.“

„Eins og menn haldi að þeir séu ódauðleg­ir“

Að sögn Víðis hafa þeir sem farið hafa inn á svæðið gert það af yf­ir­lögðu ráði, til að skoða gosið og taka mynd­ir. „Menn eru ekk­ert að fara þarna óvart. Allir slóðar inni á svæðinu eru mjög vel merkt­ir og eng­inn af þeim sem við höf­um haft af­skipti af hef­ur haft mögu­leika á öðru en að vita ná­kvæm­lega hvað hann var að gera. Í umræðunni og öllu sam­an kem­ur alltaf fram að þetta sé lokað. Menn eiga enga af­sök­un,“ seg­ir hann. „Það er eins og menn haldi að þeir séu ódauðleg­ir. Ég veit ekki hvað það er sem veld­ur því að menn telji að þeir geti gert þetta án þess að setja sig og þá sem eru með þeim í för í hættu.“

Eins og áður sagði get­ur fólk sem fer inn á svæðið átt von á mjög háum sekt­um. Þar sem bannað er að fara inn á svæðið er sekt­in fyr­ir hvern ein­stak­ling. „Þetta er ekki brot á um­ferðarlög­um svo það er ekki bara bíl­stjór­inn sem fær sekt­ina, það eru bara all­ir sem eru í ferðinni. Hver ein­asti aðili sem fer inn á svæðið fær sekt,“ seg­ir Víðir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert