„Það er alveg klárt að ég fer með þetta í lögfræðing ef Icelandair verður ekki við kröfunni. Ég býst við því að fá svar frá þeim einhvern tímann fyrir helgi,“ segir listamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson, betur þekktur sem Odee, en Icelandair birti á dögunum ljósmynd í leyfisleysi á heimasíðu sinni sem hann tók af eldgosinu í Holuhrauni. Auk þess hefur fyrirtækið notað myndefnið í kynningarherferð sinni um allan heim.
„Ég var að fljúga með Flugfélagi Íslands á milli Egilsstaða og Reykjavíkur um daginn og flugstjórinn ákvað að taka smá aukakrók og fara í útsýnisflug yfir eldgosið. Það var mjög skemmtileg lífsreynsla, þetta var þrjátíu mínútna krókur en farþegarnir voru engu að síður allir mjög sáttir,“ segir hann.
„Ég náði nokkrum flottum myndum af eldgosinu og setti þær inn á listamannssíðu mína, odee.is, til að auglýsa sjálfan mig og mín verk. Ég fékk síðan símtal daginn eftir frá Flugfélagi Íslands og var spurður hvort þeir mættu deila tengli af síðunni minni, þar sem myndirnar voru, á síðunni sinni. Fólk myndi þannig getað farið inn á heimasíðuna mína af síðunni þeirra til að skoða myndirnar. Ég samþykkti það. Síðan liðu tveir dagar og þá fékk ég ábendingu þess efnis að Icelandair væri búið að taka myndefnið og setja inn á forsíðu heimasíðu sinnar í auglýsingaskyni. Ég var ekki búinn að gefa leyfi fyrir því. Þegar ég fór að skoða málið betur þá kom í ljós að Icelandair hafði meira að segja sent myndefnið út sem fréttatilkynningu til miðla út um allan heim,“ segir Oddur.
„Þegar ég átta mig á þessu öllu þá hef ég samband við Flugfélag Íslands sem hafði fengið leyfi til að vísa á listamannssíðuna mína á heimasíðu sinni. Þá kemur í ljós að markaðsskrifstofur fyrirtækjanna eru tengdar á einhvern hátt. Flugfélag Íslands hafði þá gefið Icelandair leyfi til að birta myndirnar. Flugfélag Íslands birti myndirnar auk þess á twitter-aðgangi sínum án þess að minnast einu orði á heimasíðu mína eða að ég hafi gefið leyfi fyrir myndbirtingunni,“ segir hann.
„Þau sem ég talaði við hjá Flugfélagi Íslands voru svolítið skömmustuleg og buðu mér vildarpunkta sem nota mætti hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands. Ég fékk síðan aðra símhringingu þar sem mér var tjáð að búið væri að leggja inn á mig 25 þúsund vildarpunkta. Það dugir ekki einu sinni fyrir flugi aðra leið til Bretlands auk þess sem ég hefði þurft að borga flugvallarskatta. Þetta var því bara móðgun. Ég tjáði viðkomandi að ég styddist við lágmarksgjaldskrá sem Myndstef gefur út. Þar er það meðal annars tekið fram að það sé 100% álagning þegar mynd er notuð í leyfisleysi,“ segir Oddur.
Í bréfi sem Myndstef sendi til Icelandair fyrir hönd Odds kemur meðal annars fram að „samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972, einkum 3. gr., sbr. 2. gr. þeirra laga, hefur höfundur einkarétt til notkunar verka sinna og eftir atvikum rétt til sanngjarnrar þóknunar vegna notanna. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga er Myndstef heimilt að innheimta þóknun vegna notanna, leita úrræða til fullnustu réttar höfundar, koma í veg fyrir frekari brot á rétti hans og úthluta þeirri þóknun. Gjaldskrá Myndstefs, samþykkt af menntamálaráðuneytinu, skal lögð til grundvallar (vegna birtingu ljósmyndar á fjórum síðum í allt að einn mánuð á internetinu, ásamt 100% álagi vegna óheimilar birtingar) sjá hér http://myndstef.is/islenska/gjaldskra/internet/. Samtals 59.524.-. Greitt er fullt gjald fyrir einn miðil og 20% afsláttur af hinum þremur.“
„Um leið og ég krafðist þessa lögbundna lágmarksgjalds, þá kom fát á á viðkomand og hún sagðist ekki getað samið meira við mig. Ég hef persónulega ekkert heyrt meira í henni, öll samskiptin hafa farið í gegnum Myndstef. Nú þarf Myndstef einnig að senda svona póst til allra erlendu fréttablaðanna sem Icelandair deildi myndinni til. Það þarf líka að skoða það hvort Icelandair sé skaðabótaskylt, þau eru náttúrlega búin að stela af mér auglýsingu,“ segir Oddur.
„Sem listamaður blanda ég saman höfundarréttarvörðu efni til að búa til ný sjálfstæð listaverk sem hafa sinn eigin höfundarrétt. Ég hef rannsakað höfundarréttinn mikið. Þó ég noti höfundarréttarvarin verk í að búa til listaverk þá virði ég samt alltaf höfundarréttinn, ég er ekki að birta óbreyttar myndir frá einhverjum öðrum og segjast eiga þær,“ segir hann.
„Það er svívirðilegt þegar svona stór fyrirtæki eru að stela myndum, ekki bara til birtingar á síðu sinni heldur einnig til að dreifa þeim á heimsvísu. Það að ætla að síðan af gefa mér 25 þúsund vildarpunkta er bara hlægilegt,“ segir hann að lokum.