Ekkert dregur úr framleiðslu hrauns

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með sama hætti og síðustu daga. Engin merki sjást um að eldgosið sé í rénun. Ekkert hefur dregið úr framleiðslu hrauns. Hraunbreiðan er nú rúmir 37 ferkílómetrar.

Nýjar mælingar á þykkt hraunsins sýna að heildar rúmmál hraunsins er 0,4-0,6 rúmkílómetrar og kvikuflæði 250-350 rúmmetrar á sekúndu, að því er segir í tilkynningu frá vísindamannaraði Almannavarna. 

Þá heldur sig öskju Bárðarbungu áfram á svipuðum hraða og verið hefur.

Áfram mælast stórir skjálftar við Bárðarbunguöskjuna, en þar hafa mælst 12 jarðskjálftar stærri en þrír frá síðasta fundi vísindamannaráðs í gærmorgun. Sá stærsti mældist 5,5 stig kl. 10:51 í gær og er hann næst stærsti skjálftinn frá því hrinan hófst þann 16. ágúst síðastliðinn. Smærri skjálftar mælast enn við norðurhluta berggangsins og við gosstöðvarnar.

Skjálftar af stærð upp að fjórum hafa mælst undir norðnorðvestur hlíð Bárðarbungu síðan á laugardag.

Engar breytingar sjást á vatnamælum sem ekki er hægt að skýra með veðurfarsbreytingum.

Á morgun er útlit fyrir vestlæga átt og má þá búast við að gasmengun berist til austurs yfir Hérað og Austfirði. Spána má sjá hér.  Einnig má sjá gagnvirkt kort af gasdreifingu hér.

Veðurstofan hefur opnað nýtt vefsvæði á vefsíðu sinni þar sem almenningur getur skráð inn hvort vart hafi verið við brennisteinsmengun. Síðan heitir Skrá mengun og er á forsíðu vefs Veðurstofunnar.

Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð. Tafla um viðbrögð við loftmengun hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni www.loftgæði.is Veðurstofan birtir textaspár á vef sínum og viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast.

Umhverfisstofnun kannar möguleika á því að fá fleiri mæla til landsins svo betur megi fylgjast með gosmengun frá eldgosinu.

Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu. Unnið er á Hættustigi almannavarna.

Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:

  • Gosið í Holuhrauni fjarar út og öskjusig í Bárðarbungu hættir.
  • Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.
  • Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir. Enn er hætta á flóði og byggir það hættumat á því að enn getur gosið undir Vatnajökli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert