Segir skynsamlegt að flytja Fiskistofu

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir vel hafa verið staðið að undirbúningi á flutningi Fiskistofu til Akureyrar. Hann segir ákvörðunina skynsamlega, en hún hefur hlotið töluverða gagnrýni að undanförnu.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, beindi spurningu til Sigurðar Inga í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þingfundi Alþingis, sem hófst klukkan 3 í dag. Brynhildur sagði framkvæmdina um flutning Fiskistofu mjög vanhugsaða, og sagðist hún ekki telja að vandað væri til verka.

Brynhildur spurði ráðherra um það hvers vegna ekki væri gert ráð fyrir flutningnum í fjárlögum fyrir árið 2015. Ráðherra sagði ástæðuna þá að óljóst væri hversu margir starfsmenn myndu flytja og því væri ekki vitað hve miklir fjármunir færu í flutningana.

Þá spurði Brynhildur um þriggja milljóna króna flutningsstyrk sem starfsmenn stofunnar munu fá fylgi þeir stofunni til Akureyrar. Ráðherra sagði upphæðina fundna út frá launum starfsmanna í þrjá mánuði auk annarra gjalda, og væri í raun kostnaðarminni en ráðningarferli og það sem því fylgir.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, tók undir með Brynhildi og benti á að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefði gagnrýnt þessa ákvörðun og talið óeðlilegt að starfsmönnum væru boðnar þessar upphæðir. Sigurður Ingi sagðist hafa orðið hissa á þessum ummælum Vigdísar þar sem hann telji ákvörðunina skynsamlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert