Telur sátt um olíuvinnsluna

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra. mbl.is/Ómar

Olíuvinnsla við Ísland er í ákveðnum farvegi sem sátt er um á meðal flokka á þingi. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra þegar hann var spurður að því hvort hann setti ekki spurningarmerki við vinnsluna í ljósi loftslagsbreytinga á Alþingi í dag.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur boðað þjóðarleiðtoga til fundar í New York til að ræða loftslagsbreytingar á morgun. Þar eru leiðtogarnir hvattir til þess að taka ábyrgð á og frumkvæði að aðgerðum til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Af þessu tilefni spurði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi umhverfisráðherra, arftaka sinn í embætti hver skilaboð Íslands yrðu á fundinum og í hverju undirbúningur okkar fælist fyrir ráðstefnu sem haldin verður í París á næsta ári þar sem stefnt er að því að ná bindandi samkomulagi um að draga úr losun.

Sigurður Ingi benti á skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (OECD) um stöðu umhverfismála á Íslandi undanfarinn áratug þar sem bent var á sérstöðu landsins. Um 85% af orku Íslendinga væru endurnýtanleg og það væru þeir langt á undan öðrum þjóðum. Þá væri heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér innan við helmingur af losun meðalkolaorkuvers í Þýskalandi. Það þýddi þó ekki að ekki væri hægt að gera betur.

„Við erum að uppfylla Kyoto-samninginn. Við erum með kolefnisbindingarverkefni sem er mjög áhugavert og vísir að byrjuninni kemur fram í fjárlögum þessa árs þar sem við ætlum að binda kolefni í auknum mæli með skógrækt og landgræðslu. Halda áfram á þessari jákvæðu braut með jarðhitann, ekki síst í þróunarríkjum og sem er stór hluti af okkar þróunarstarfi, sem skilar gríðarlega miklu til loftslagsbreytinga í heiminum öllum,“ sagði Sigurður Ingi um undirbúninginn fyrir fundinn í París á næsta ári.

Þá sagði hann gríðarleg tækifæri til að draga úr losun í samgöngum og mikið rafmagn væri til í landinu. Mörg tæknifyrirtæki væru að taka á losun gróðurhúslofttegunda eins og Carbon Recycling á Reykjanesi sem breyti koltvísýringi í metanól sem eigi að nýta sem orku.

Olíuvinnslan í „ákveðnum farvegi“

Vísindamenn segja að ef það markmið að halda hlýnun jarðar innan við 2°C frá því fyrir iðnvæðingu, sem talið er nauðsynlegt til að afstýra alvarlegustu afleiðingum loftslagsbreytinga, eigi að nást þurfi að skilja allt frá helmingi og upp í 80% af óunnum kolefnaeldsneytisforða heimsins eftir í jörðinni.

Svandís spurði umhverfisráðherra því um fyrirhugaða olíuvinnslu við Ísland og hvort hann setti ekki spurningarmerki við þau áform í ljósi þess að alþjóðlegar stofnanir litu svo á að nóg væri komið af jarðefnaeldsneyti og vinnslu þess.

„Varðandi olíuvinnsluna er það mál í ákveðnum farvegi sem hefur verið nokkur sátt um hér í þinginu á meðal ólíkra flokka,“ sagði Sigurður Ingi í svari sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert