„Þetta er mjög spennandi og það er mikil gleði í íslenska jarðvarmasamfélaginu,“ segir Hákon Gunnarsson, klasastjóri Iceland Geothermal, en tilkynnt var á dögunum að heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins yrði haldið hér á landi árið 2020.
Búast má við þúsundum gesta hingað til lands á þingið, en um 3.500 gestir tóku þátt í seinasta þingi sem haldið var á Balí í Indónesíu fyrir fjórum árum síðan. Næsta þing verður haldið í Ástralíu á næsta ári og þar munu Íslendingar taka við kyndlinum. „Þetta er langstærsti viðburður á sviði jarðvarma í heiminum,“ segir Hákon. „Það er ekkert sem slær þetta út.“
Hákon segir þingið vera einn umfangsmesta ráðstefnuviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi, en það mun fara fram í Hörpu. Á þinginu koma saman þúsundir jarðhitavísindamanna, verkfræðinga, tækjaframleiðenda, fjármálastofnana, leyfisveitenda, viðskiptamenn og fleiri og bera saman bækur sínar. „Menn eru að kynna nýjar uppgötvanir, nýjar vörur, nýja þjónustu og nýja möguleika. Jarðvarminn er alltaf að verða öflugri valkostur í heimi sem einkennist af orkukrísu. Íslendingar eru mjög vel staðsettir til að axla meiri ábyrgðar og okkar hlutverk mun vaxa í framtíðinni,“ segir Hákon. „Við eigum gríðarlega möguleika á þessu sviði.“
Stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins kaus um staðarvalið, og var Ísland valið umfram lönd eins og Þýskaland, Bandaríkin, Kenýa, Filippseyjar og Chile. Kosið var með útsláttarfyrirkomulagi en í lokaumferðinni hafði Íslands betur gegn Þýskalandi. Að sögn Hákons er ákvörðun sambandsins mikil viðurkenning fyrir það starf sem unnið hefur verið hér á landi undanfarna áratugi við uppbyggingu jarðhitanýtingar hér á landi og víða um heim.
Það voru þau Dr. Bjarni Pálsson, þáverandi formaður Jarðhitafélags Íslands og Rósbjörg Jónsdóttir hjá Iceland Geothermal sem fylgdu umsókn Íslands eftir á stjórnarfundi IGA í Manila á Filippseyjum í mars sl.
Það voru Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, annarsvegar og Jarðhitafélag Íslands hinsvegar sem fóru þess á leit við Iceland Geothermal klasasamstarfið að leiða vinnu við umsóknarferlið fyrir Íslands hönd. Margir aðilar komu að umsóknarferlinu sem einkenndist af breiðri samstöðu jarðhitasamfélagsins. Stuðningur kom einnig frá forseta Íslands, ríkisstjórninni og Reykjavíkurborg. Mikil og góð samvinna er á milli Iceland Geothermal og Ráðstefnuskrifstofu Reykjavíkur, Meet in Reykjavik, að undirbúningi þessa verkefnis.
„Okkur er falið þetta hlutverk en við berum hins vegar rekstrarlega og fjárhagslega ábyrgð á þessu og höfum fengið mjög góðan stuðning hvarvetna,“ segir Hákon. „Þetta verður mjög metnaðarfullt og við ætlum að reka þetta á ábyrgan hátt. Það verður mjög spennandi að takast á við þetta.“