Hvað verður um ruslið sem fer í hafið?

Drengur á Filippseyjum umkringdur plastpokum og rusli úr hafinu.
Drengur á Filippseyjum umkringdur plastpokum og rusli úr hafinu. AFP

Hafið þekur rúmlega sjötíu prósent jarðarinnar og því ekki að undra að þar safnist heimsins mesta rusl sem frá manninum kemur. Það er óhugnanlegt til þess að hugsa að sjálft hafið, sem umlykur okkur á Íslandi, geti í nánustu framtíð breyst úr gullkistu í ruslakistu verði ekkert gert til að sporna við þróuninni. Í dag er haldin ráðstefna í Hörpu um plastmengun í hafi og leiðir til úrbóta í þeim málum.

Hafið bláa, hafið hugann dregur, hvað er bak við ystu sjónarrönd?“ Svo orti Magnús Stefánsson (Örn Arnarson) fyrir margt löngu um hafið. Eins fallegt og það getur verið á fögru sumarkvöldi og ógurlega hryssingslegt í haustlægðunum þá er það staðreynd, sama hvernig á það er litið, að hafið geymir ógrynni rusls. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, efnafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís, er ein þeirra sem flytja fyrirlestur á ráðstefnu Umhverfisstofnunar um plast í hafi. Yfirskrift fyrirlestrar hennar er „Sewage treatment plants as sources for marine microlitter“. Í framhaldsnámi í Svíþjóð á sviði umhverfismengunar sérhæfði hún sig í mælingum á mengun. „Mengun tengist hafinu svo sterkum böndum, því miður,“ segir Hrönn. „Margt af því sem við sleppum út endar í sjónum.“

Hinar örsmáu plastagnir

Svíar eru nokkuð framarlega í rannsóknum á mengun sjávar enda Eystrasaltið eitt mengaðasta hafsvæði veraldar og því verið tilneyddir til að hefja rannsóknir á mengun sjávar. Það leysir okkur á Íslandi þó ekki undan ábyrgðinni því við strendur landsins má finna ægilegt rusl og íslenskar rannsóknir á sjófuglum hafa meðal annars sýnt að þeir innbyrða töluvert af plasti sem flýtur hér allt um kring. Það er ekki að ástæðulausu að vísindamenn víðsvegar um hnöttinn eru áhugasamir um hafið og sjálf er Hrönn hluti af rannsóknarteymi sem samanstendur af íslenskum, finnskum og sænskum vísindamönnum. Rannsóknin, sem hófst fyrir stuttu, snýst um að finna út að hvaða leyti skólphreinsistöðvar virka sem ákveðin gátt fyrir öragnir eða örplast eins og fjallað verður um á ráðstefnunni. Hrönn mun segja frá þessari rannsókn í erindi sínu. „Örplast hefur verið notað í snyrtivörur, því er bætt í tannkrem og svo er það í ýmsu sem við notum. Til dæmis við þvott á flíspeysu fara trefjaagnir út með þvottavatninu og ýmislegt fleira sem veldur því að þetta fer út með skólpinu,“ segir Hrönn.

Agnirnar eru innan við 5 mm að stærð og geta því sloppið í gegnum alls kyns síur og eiga greiða leið út í hafið. Á Íslandi er skólp ekki hreinsað á sama hátt og t.d. í Svíþjóð og Finnlandi en þar er skólp gjarnan hreinsað vandlega því á sumum stöðum er því sleppt út í ferskvatn. Auk þess þarf að hreinsa skólp áður en það fer út í hið mengaða Eystrasalt til að vinna á móti vaxandi mengun. Þrátt fyrir mikla hreinsun á skólpi sleppa þessar öragnir eða örplast í gegn og út í hafið. Þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvað gerist þegar þessi efni eiga orðið greiða leið inn í vistkerfið og þar með fæðukeðjuna.

Plast í matnum?

Enn sem komið er hafa vísindamenn lítið rannsakað hvaða áhrif plast kann að hafa á fæðukeðju æðri dýra en þó eru ýmsar rannsóknir hafnar. „Þetta er frekar nýtt rannsóknarefni en áhyggjur manna beinast einkum að örplastinu. Örplastið er það smátt að auðvelt er fyrir lífverur að fá það í magann og plastið er þannig úr garði gert að það er fremur feitt efni þannig að sú mengum sem er til staðar í hafinu getur sogast inn í plastið. Þegar plastið er komið inn í lífveruna geta eiturefnin losnað,“ segir Hrönn.

Þó svo að ekki liggi fyrir hvaða áhrif þetta kann að hafa eru meiri líkur en minni á að efnin geti með einhverjum hætti borist inn í fæðukeðjuna.

„Annað sem er lítt rannsakað en eftir sem áður áhyggjuefni er að þegar agnirnar eru orðnar nægilega smáar geti þær jafnvel komist inn í líkamann,“ segir Hrönn og nefnir rannsóknir á kræklingi þar sem örplasteindir sáust inni í vöðvum. Hvort hið sama geti átt sér stað hjá fiskum eða spendýrum er ekki vitað en sannarlega vert rannsóknarefni.

Lóð á vogarskálarnar

Ráðstefna Umhverfisstofnunar miðar að því að fá fram fjölbreyttar, markvissar og raunhæfar lausnir. Þátttakendur eru úr ýmsum áttum, bæði úr einkageiranum sem og hinum opinbera. Þó svo að vísindamenn séu í óðaönn að rannsaka málin getur hver og einn lagt sitt af mörkum til að minnka skaðann því mengun sjávar er jú tilkomin vegna okkar, mannfólksins. „Hver og einn getur gætt að því hvernig hann fleygir rusli, hugað að því að endurvinna plast og hvort við þurfum að nota allar þessar plastvörur. Síðast en ekki síst er mikilvægt að fleygja ekki rusli út í náttúruna,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, efnafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís.

Fljótandi plastknippi

Það er sannarlega ekkert til að hafa í flimtingum að plastflekar á stærð við heilu löndin fljóta um heimsins höf. Þekktasti „ruslaflekinn“ flýtur um í N-Kyrrahafi. Nokkurs konar iða eða svelgur myndast af rusli og flýtur um. Svelgurinn myndast þegar heitir og kaldir hafstraumar mætast og úr verður eins konar braut fyrir rusl á milli heimsálfa. Fyrir vikið verður hluti ruslsins sem hent er í höfin sýnilegur okkur mannfólkinu og það sem meira er þá getur hann reynst lífshættulegur sjávarlífverum. Stór hluti þess úrgangs og rusls sem þarna flýtur brotnar hægt eða hreinlega ekki niður í náttúrunni. Efni á borð við plast brotnar niður í smærri eindir en hverfur þó ekki. Þessar smáu einingar plasts mynda eins konar súpu þar sem stærri og greinilegri hlutir tróna á toppnum; allt frá veiðarfærum upp í skó. Þegar einingar ruslsins verða smærri falla þær til botns þar sem nýir sorphaugar myndast því talið er að um 70% þess rusls sem brotnar niður í ruslasvelgnum endi á sjávarbotni.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir hefur m.a. skoðað hvernig agnarsmáar plasteindir komast …
Hrönn Ólína Jörundsdóttir hefur m.a. skoðað hvernig agnarsmáar plasteindir komast framhjá síum og út í sjóinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert