997 íslenskir karlmenn hafa nú tekið þátt í herferðinni HeForShe sem snýst um að virkja karlmenn í mótmælum gegn kynjamisrétti.
Leikkonan Emma Watson hóf herförina á dögunum, en ræða hennar, þar sem hún talaði um femínisma, vakti mikla athygli.
Á heimasíðu herferðarinnar, geta karlmenn af öllum þjóðum skráð sig og er hægt að fylgjast með á síðunni hvaðan þeir koma.
Þó svo að 997 íslenskir karlmenn séu aðeins 0,3% þjóðarinnar, lítur út fyrir að þeir skari fram úr öðrum þjóðum, það er miðað við höfðatölu. Til að mynda er Svíþjóð eina Norðurlandið þar sem fleiri karlmenn hafa skráð sig, en þeir eru 3234 talsins. 798 norskir karlmenn hafa skráð sig, 990 danskir en aðeins 386 finnskir. Er það aðeins 0,007% af 5,4 milljónum Finna.
Um 314 milljónir manns búa í Bandaríkjunum. Um 0,0097% þeirra hafa skráð sig, en bandarísku karlmennirnir á listanum eru 30736 talsins.
Áhugavert er að bera tölu íslensku karlmannanna við kynbræður þeirra í fjarlægari löndum. Við þurfum þó ekki að fara mikið lengra en til Rússlands til þess að sjá verulega lækkun. Þar hafa aðeins 154 karlmenn skráð sig en rúmlega 143 milljónir búa þar. Þar að leiðandi hefur aðeins um 0,0001% Rússa skráð sig á listann.
Jafnframt hafa 0,0017% eða 734 karlmenn skráð sig í 41,5 milljón manna landinu Argentínu og 496 í Suður Afríku. Þar búa tæplega 53 milljónir og hafa því aðeins um 0,00093% skráð sig.
Ef farið er til miðausturlanda birtast svipaðar tölur. Í Íran, þar sem að búa tæplega 77,5 milljónir, hafa 82 karlmenn skráð sig, eða um 0,0001% þjóðarinnar. Er það svipað hlutfall og í Rússlandi.
Í Sádi-Arabíu hafa 75 karlmenn skráð sig. Það eru um 0,00026% þjóðarinnar.
Aðeins tveir karlmenn skráð sig í Túrkmenistan. Af 5,4 milljóna þjóð eru það 0,000037%.
Alls hafa 96126 karlmenn skráð sig.
Fréttir mbl.is:
„Jafnréttismál eru mál allra“
„Ræða Emmu Watson vekur athygli“
Uppfært 11:06
Síðan fréttin var birt hefur bæst í hópinn og eru íslenskir karlmenn á listanum orðnir 1296. Það er aukning um 299 manns á rúmum hálftíma.