Hönnuðir flestra þeirra tækja og tóla sem mest eru notuð á netinu voru hönnuð af karlmönnum, þrátt fyrir að konur séu oft og tíðum mikilvægari viðskiptavinir. Ástæða er til að velta upp þeirri spurningu hvort ekki þurfi að hugsa hönnunina út frá kvenlægum gildum. Þetta segir sérfræðingur í smásölu.
Paco Underhill er einn helsti sérfræðingur í smásölu og skrifaði meðal annars bækurnar Af hverju við kaupum: Vísindi verslunar (e. Why We Buy: The Science of Shopping) og Þetta vilja konur (e. What Women Want). Paco heldur fyrirlestur í Háskólabíó á morgun þar sem hann kemur inn á hvaða þættir hafa áhrif á hvað fólk kaupi í verslunum og á netinu. Þá mun hann benda á tækifæri og hugmyndir sem kaupmenn og markaðsmenn ættu að veita athygli.
„Ég mun meðal annars ræða um muninn á viðskiptaumhverfinu um aldamót og í dag. Það er að sjálfsögðu gjörólíkt og hefur breyst með þróun menningar og samfélagsins. Ég mun sýna dæmi þess hvaðan æva úr heiminum og varpa ljósi á hvernig mismunandi menningarheimar takast á við breytingarnar,“ segir Paco spurður um helstu efnistök fyrirlestrarins. „Einnig fer ég yfir líffræðilega þætti sem stýra því hvernig við eigum samskipti og bregðumst við efnislegu rými og óáþreifanlegu.“
Með óáþreifanlegu rými á Paco við þann netheim þangað sem mikill hluti lífs mannvera hefur færst. Hann bendir á að menn noti ekki símann eins og fartölvuna eða spjaldtölvuna þrátt fyrir að hlutirnir séu notaðir sem aðgangur að netheimum. Og þrátt fyrir að notkunin sé ekki eins virðist sem aðeins sé unnin ein útgáfa af vefsvæðum eða þjónustugáttum fyrir öll tækin. Hann segir að ein ástæða þess geti verið sú að karlmenn hafi í miklum meirihluta staðið að hönnuninni. „Karlmenn nálgast tækni sem tækni en konur nálgast hana frekar sem tæki. Konur spyrja hvað tæknin getur gert fyrir þær, hvernig auðveldi hún líf þeirra og bæti lífsgæðin.“
Sökum þess hversu mikilvægar konur eru, til dæmis vefverslunum og samfélagsmiðlum, segist Paco telja að því verði að velta fyrir sér hvort kvenlæg gildi þurfi ekki að veita meira vægi og hugsa til þarfa kvenna. „Ef við gerum það verða vörurnar sjálfkrafa betri fyrir alla.“
Á ráðstefnunni á morgun verður fjallað um kauphegðun, vörumerkjavitund, veltuaukningu verslana og framtíð smásölu. En áður en Paco - ásamt öðrum - heldur erindi sitt kemur hann við í Kringlunni. Hann mun ganga um verslunarmiðstöðina ásamt stjórnendum hennar og taka hana út í því sem nefnist verslunarráðgjöf (e. store clinic) en það er hluti af stefnumótun Kringlunnar.
Spurður um verslunarráðgjöfina segir Paco: „Ég geng um svæðið ásamt litlum hópi fólks og ræði við það á meðan göngunni stendur. Þetta er skemmtilegt og ég hef tekið þetta að mér víðsvegar um heiminn. Ég spyr til dæmis hvað fólk sjái á tilteknum stöðum og hvort hlutirnir væru ekki betri ef þeir væru gerðir á annan hátt. Þetta getur gagnast eigendum verslana, stjórnendum verslunarmiðstöðva, útstillingahönnuðum og markaðsfólki.“
Hann segir að með þessu geti hann opnað augu verslunarmanna, öllum til heilla. „Hluti af því sem við horfum í verslunarráðgjöfinni er samsetning listar og vísinda, það er spurningin um hvernig hlutirnir líta út og hvernig þeir virka í raun.“
Paco er stofnandi og forstjóri Envirosell, rannsóknar og ráðgjafafyrirtækis með skrifstofur í tíu löndum. Hann hefur unnið með fyrirtækjum á borð við Microsoft, HP, Citibank, Coca Cola, McDonalds, Bulgari, Selfridges og Carrefour. Hann hefur á 25 ára ferli sínum unnið töluvert á Norðurlöndunum en aldrei fyrr sótt Ísland heim. „Ég hef lesið bækur sem gerast á Íslandi, séð kvikmyndir sem teknar voru hérna en þetta er í fyrsta skipti sem ég kem hingað.“
Hann er hér ásamt konu sinni og ætla þau að sjá Þríhnúkagíg, fara í Bláa lónið og ganga um Reykjavík. „Svo mun konan mín sækja heilsulindir og versla.“
Ráðstefnan Why We Buy: Science of Shopping fer fram í Háskólabíói á morgun. Bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar fjalla þar meðal annars um framtíð vörumerkja og smásölu.