„Við skulum sækja fram. Við skulum þora að gera nauðsynlegar breytingar til að auka hagsæld íbúa okkar sveitarfélaga,“ sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í setningarræðu sinni á XXVIII. landsþingi sambandsins fyrr í dag.
Í ræðunni sagði Halldór að minnka þurfi kerfið, en að utanaðkomandi aðstæður kalli eftir aukinni þjónustu eins og í öldrunarmálum. Þá sagði hann að í upphafi nýs kjörtímabils sé það eitt af meginverkefnum sveitarstjórnarmanna að hyggja að framtíðinni og leggja niður fyrir sér hvernig þeir sjái þróun sveitarstjórnarstigsins og með hvaða hætti á að styrkja og efla þjónustuna við íbúana næstu fjögur árin. Þetta kemur fram á vef sambandsins.
Halldór vék í ræðu sinni að ýmsum málaflokkum sem sveitarfélögin sinna, s.s. fjárhagsstöðu þeirra og sagði það jákvætt að fjárhagur þeirra hefur batnað og sveitarfélög hafað lækkað skuldir. Þá talaði hann um samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það sé mikilvægt að fara vel með opinbert fé og að landsmenn fái þá þjónustu sem þeir þurfa, og að hún sé fjármögnuð á þann hátt að tekjur standi undir útgjöldum.
„Ég tel að við eigum áfram að stefna að sameiningu og eflingu sveitarfélaga. Við þurfum stórar og sterkar einingar á sveitarstjórnarstiginu. Þjónustukrafan eykst stöðugt af hálfu íbúa og við þurfum að nýta skattfé betur,“ sagði Halldór.
Landsþingið fer fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og er hægt að fylgjast með því í beinni útsendingu á vef sambandsins.
Hér fyrir neðan er ræða Halldórs í heild.