Stjórnvöld ekki sinnt ábendingum

mbl.is/Styrmir Kári

„Mál Mjólkursamsölunnar er grafalvarlegt og aðför gegn neytendum, ef satt reynist,“ segir Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag. Vísar hann þar til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að sekta MS um 370 milljónir fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu. Hann segir að stjórnvöld hverju sinni hafi ekki sinnt ítrekuðum ábendingum eftirlitsins um leiðir til að efla samkeppni í mjólkuriðnaði.

Karl vitnar til orða Páls Gunnars Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitisins, þess efnis að breytingar á lagaumhverfi grænmetisiðnaðarins hafi gjörbreytt stöðunni á þeim markaði. Verð hafi lækkað til neytenda og neysla aukist. Bæði framleiðendur og neytendur hafi hagnast á endanum.

„Framsóknarflokkurinn hefur tekið stöðu með þeim sem minnst hafa í matarskattsmálinu. Þegar kemur að aukinni samkeppni í mjólkuriðnaði geta rökin og afstaðan ekki verið önnur. Við verðum að þora að taka umræðuna - með hagsmuni neytenda og framleiðenda í huga. Þögnin dugar ekki.“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert