Þurfa ekki að undirbúa flutninginn

Fiskistofa hefur frá byrjun árs 2006 haft aðsetur að Dalshrauni …
Fiskistofa hefur frá byrjun árs 2006 haft aðsetur að Dalshrauni í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Það er mat lögfræðings Bandalags háskólamanna að ekki sé hægt að fyrirskipa starfsmönnum Fiskistofu að taka þátt í að undirbúa flutning stofnunarinnar til Akureyrar miðað við aðstæður.

Bandalagið óskaði eftir áliti lögfræðings við eftirfarandi spurningu:

„Hver er skylda starfsmanna til að taka þátt í undirbúningi flutnings Fiskistofu til Akureyrar m.t.t. að engin lagaheimild liggur fyrir um að flytja Fiskistofu.  Undirbúningur flutnings af hálfu framkvæmdavaldsins sé hafinn án þess að lög liggi fyrir. Verkefnastjóri breytinga sé kominn til starfa hjá Fiskistofu og í byrjun október eigi að liggja fyrir hvenær hvaða störf flytjast.”

Í lögfræðiálitinu sem er birt á vef BHM, kemur fram starfsmenn Fiskistofu falla undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 15. gr. er kveðið á um skyldu starfsmanns til að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna um starf sitt. Þessi skylda hefur verið nefnd hlýðniskylda.

Þá segir: „Af dómaframkvæmd má ráða að til að hlýðniskyldu sé hægt að framfylgja verða ákveðnar lágmarkskröfur þeirra fyrirmæla sem hún er reist á að vera uppfylltar. Þau þurfa til að mynda að byggja á beinum lagafyrirmælum. Geri þau það ekki verða þau að vera svo skýr að enginn vafi leiki á því hvort þeim hafi verið hlýtt. Þar að auki þurfa þau að vera málefnaleg, samanber Hæstaréttardóm nr. 161/1998. Í honum voru málavextir þeir að forstöðukonu var veitt áminning, meðal annars fyrir það að hafa óhlýðnast fyrirmælum. Konunni hafði verið afhentur verkefnalisti sem hún sá sér ekki fært að fara eftir. Hæstiréttur taldi að ekki yrði fallist á að um brot á hlýðniskyldu samkvæmt starfsmannalögum væri að ræða þar sem forstöðukonan hafði skilað af sér greinargerð sem fól í sér málefnalega afstöðu til vandkvæða þeirra sem hún sá á því að fara eftir listanum. Ekki væri hægt að skera úr um það hvort hún myndi víkjast undan þeim verkum sem hægt væri að ætlast til að hún ynni miðað við aðstæður.

Eins og ítarleg grein hefur verið gerð fyrir í bréfi BHM frá 18. september sl. er það mat BHM að ákvörðun um flutning Fiskistofu sé ólögmæt og með málefnalegum og skýrum hætti bent á þau vandkvæði sem ákvörðunin hefur í för með sér. Samkvæmt reglum vinnuréttar er starfsmanni í engu skylt að hlýða fyrirskipunum sem eru ólöglegar né sem eru utan við verksvið starfsmannsins. Hvort tveggja á við hér.  Það er álit undirritaðrar að ekki sé hægt að fyrirskipa starfsmönnum Fiskistofu að þeir taki þátt í því að undirbúa flutning Fiskistofu til Akureyrar miðað við aðstæður. Þeim sé því ekki skylt að taka þátt í undirbúningi flutnings Fiskistofu til Akureyrar.“

Álitið í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert