Vilja viðbragðsáætlun fyrir Austurland

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) segja að íslensk stjórnvöld verði að tryggja fjármagn til rannsókna og vöktunar á meðan eldsumbrotin standa yfir í norðanverðum Vatnajökli. Móta þurfi sameiginlega viðbragðsáætlun fyrir allt Austurland.

Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar SSA um síðastliðna helgi. 

Fjallað var um eldsumbrotin norðan Vatnajökuls á fundinum og flutti eldfjallafræðingurinn Ármann Höskuldsson erindi um hugsanlegar afleiðingar goss í Bárðarbungu.

„Fram kom í hans máli að áhrif á landshlutann gætu orðið gríðarleg. Má t.d. nefna mögulegan vatnsskort í mörgum byggðakjörnum á Austurlandi þar sem íbúar reiða sig á opið vatnsból, mögulega röskun á rafmagnsveitu og fjarskiptasambandi, umtalsverða flóðahættu, að ekki sé minnst á öskufall,“ segir í tilkynningu frá SSA.

Þá segir, að fundarmenn hafi lagt mikla áherslu á að þegar í stað yrði hafist handa við gerð viðbragðsáætlunar ef til eldgoss í Bárðarbungu kæmi. Í ályktuninni segir að það sé brýnt öryggismál og varði almannaheill á Austurlandi að slík viðbragðsáætlun liggi fyrir. Þá verði stjórnvöld að tryggja fjármagn til rannsókna og vöktunar á meðan þetta ástand varir.

Fundurinn beindi því jafnframt til stjórnar SSA að unnin verði sameiginleg viðbragðsáætlun fyrir Austurland allt og er sú vinna þegar hafin að sögn Sigrúnar Blöndal, nýkjörins formanns SSA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka