Vilji til að hafa nefndarfundi opna

mbl.is/Hjörtur

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst mál hverrar nefndar fyrir sig. En þingið er mjög opið fyrir þessum möguleika í sjálfu sér. Það leiðir hins vegar svolítið af eðli hvers máls,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, aðspurður hvaða stefna væri í gildi af hálfu þingsins varðandi opna fundi á vegum þingnefnda. Möguleikinn væri alltaf fyrir hendi.

„Það er þá tvenns konar fundir sem um hefur verið að ræða. Annars vegar heimild til þess að hafa opna fundi sem sjónvarpað hefur verið frá og hins vegar fundir sem hafa verið sérstaklega opnir fjölmiðlum. En það er í öllum tilvikum einfaldlega ákvörðun hverrar nefndar fyrir sig hverju sinni. Þetta eru brautir sem menn hafa verið að feta sig inn á og í flestum tilvikum held ég að menn séu þeirrar skoðunar að þetta hafi heppnast ágætlega,“ segir Einar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, segir að almenna skoðun sé sú að stefna eigi í þá átt að auka opna fundi frekar en hitt. Hins vegar hljóti það alltaf að fara eftir hverju tilfelli fyrir sig og aðstæðum hvort tilefni er til þess. Ef óskir komi frá einstökum nefndarmönnum að haldnir verði opnir fundir hafi verið orðið við því. Þá annað hvort opnir fjölmiðlum eða sjónvarpað beint.

„Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða málefni sem eðli málsins samkvæmt þarf að ræða í trúnaði eins og reyndar á oft við á vettvangi utanríkismálanefndar. Einkum þegar um er að ræða samráð sem utanríkisráðherra eða ríkisstjórn þarf að eiga við utanríkismálanefnd áður en einhver skref eru stigin í alþjóðasamskiptum,“ segir hann. Til að mynda varðandi stöðuna í einstökum samningaviðræðum. En annars réðist slíkt af viðfangsefninu og aðstæðum að öðru leyti.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar, tekur í hliðstæðan streng. Hvort rétt sé að halda opna fundi ráðist talsvert af viðfangsefninu. Til að mynda ef um er að ræða málefni sem eigi ríkt erindi við almenning. nefndirnar þyrftu að ræða þessi mál sín á milli. „Mín skoðun er sú að við eigum að reyna að hafa þetta eins opið og hægt er en um það þarf það að vera matsatriði hverju sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert