Vill samkeppni í mjólkurgeiranum

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Það styrkir alla aðila á markaðnum að sem flestir vinni úr og selji mjólk. Samkeppnisaðilar verða þá líka að geta treyst því að fái sanngjarna og réttláta samkeppni - það er allra hagur að tryggja það.“

Þetta segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og bóndi, á Facebook-síðu sinni vegna frétta af því að Samkeppniseftirlitið hafi sektað Mjólkursamsöluna (MS) um 370 milljónir króna fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu. Hann segir í því sambandi að félagið verði að opna bækur sínar og huga að eigin trúverðugleika.

„Ég er félagsmaður í Auðhumlu sem rekur MS. Félagið á að sjálfsögðu sinn rétt til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum, en þá verður að mæta til þess - ekki þegja út í horni. Félagið verður að opna bækur sínar og huga að eigin trúverðugleika. Sýna sterkum viðbröðgum skilning og auðmýkt. Fólk er ekki búið að gleyma írska smjörinu.“

Haraldur segir að MS geti státað af frábærum árangri í hagræðingu sem hafi skilað sér bæði til neytenda og bænda. En margar spurningar vakna hins vegar í þessum efnum. Til að mynda hvort skynsamlegt hafi verið að kaupa einkarekna mjólkursamlagið Mjólku á sínum tíma og í hvaða ástandi það félag hafi verið þegar kaupin hafi farið fram.

„Ég hef líka alltaf talað fyrir því að MS gefi samkeppnisaðilum sínum gaum og fagni samkeppni. Það styrkir alla aðila á markaðnum að sem flestir vinni úr og selji mjólk. Samkeppnisaðilar verða þá líka að geta treyst því að fái sanngjarna og réttláta samkeppni - það er allra hagur að tryggja það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert