Fjárfestar reki hafnir og flugvelli

ISAVIA lokaði flugvellinum á Siglufirði í júlí síðastliðnum vegna hagræðingar.
ISAVIA lokaði flugvellinum á Siglufirði í júlí síðastliðnum vegna hagræðingar. mbl.is/Eggert

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segist vera reiðubúin að skoða aðkomu annarra en hins opinbera að rekstri flugvalla. Þetta sé í samræmi við stefnu stjórnvalda varðandi aukna aðkomu fjárfesta að uppbyggingu innviða hér á landi.

Hanna Birna segir í samtali vð mbl.is að stjórnvöld séu t.d. reiðubúin að skoða þann möguleika að einkaaðilar taki yfir flugvöllinn á Siglufirði, en ISAVIA  lokaði vellinum í júlí síðastliðnum vegna hagræðingar.

Morgunblaðið greindi nýverið frá því, að athafnamaðurinn Orri Vigfússon og nokkrir félagar hans vildu helst fá að taka flugvöllinn á Siglufirði yfir. Það væri skynsamleg lausn.

Hanna Birna tekur undir það sjónarmið, enda hafi ríkið ekki haft tök á að reka flugvöllinn áfram.

„Það er ákveðin vinna í gangi í ráðuneytinu sem lýtur að mögulegri aðkomu einkaaðila að samgöngubótum, og þar með talið atriði sem tengjast flugi og hafnarsamgöngum,“ segir ráðherra.

Vinnan komin vel af stað

„Heilt yfir litið erum við jákvæð fyrir því. Við áttum okkur á því að hið opinbera hefur ekki tök á því að koma að þessu öllu. Við teljum mikilvægt að þetta sé skoðað, og það gæti þá verið eitthvað samstarf á milli ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila að þessum þáttum. Eða þá í formi þess að aðilar sem t.d. standa í ferðaþjónustu hafi áhuga á að koma að þessum með einhverjum hætti,“ segir Hanna Birna.

Aðspurð segir hún að þessi vinna sé komin vel af stað, en á síðasta ári skipaði Hanna Birna starfshóp í tengslum varðandi þann möguleika að aðrir en hið opinbera komi að uppbyggingu þessara innviða.

„Í því sambandi höfum við aðallega verið að líta til samgönguframkvæmda eins og Sundabrautar og annarra þátta. En við höfum líka sagt það að við erum jákvæð fyrir aðkomu fjárfesta að þáttum er tengjast annarskonar innviðauppbyggingu, t.d. flugi og hafnarstarfsemi,“ segir Hanna Birna að lokum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert